Fyrsti „staki“ frambjóðandinn

Giedre er fyrsti einstaklingurinn til að bjóða sig fram utan …
Giedre er fyrsti einstaklingurinn til að bjóða sig fram utan flokka frá árinu 1974. mbl.is/Golli

Giedre Razgute nýtur einstakrar sérstöðu í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands þetta árið. Sem fyrr eru langlífustu stúdentafylkingar háskólans, Vaka og Röskva, með sinn framboðslistann á sínu sviði sem hægt er að kjósa í heild eða velja úr en Giedre tilheyrir hvorugum flokknum. Hún er nefnilega fyrsti einstaklingurinn til að bjóða sig fram utan flokka frá árinu 1974.

„Ég kom til Íslands haustið 2014 til að læra íslensku,“ segir Giedre. „Þegar ég kom vildi ég vita meira um hvernig allt virkar hérna í háskólanum, stúdentalífið og Stúdentaráð svo ég las um ráðið og hvað það gerir. Ég kynntist líka krökkum úr Skrökvu og þau sögðu mér frá því að það væri hægt að fara í einstaklingsframboð. Ég varð svo spennt og fannst það mjög freistandi en það var of seint að gera það í fyrra. Þegar Stúdentaráð sendi póst um kosningarnar í ár hugsaði ég að það gæti verið gaman að bjóða mig fram.“

Sögulegt skref í nýju landi

Stúdentaráð Háskóla Íslands á sér langa sögu og hafa ýmsar stúdentafylkingar sett mark sitt á starf þess. Ráðið var stofnað árið 1920 en árið 1933 voru fyrst teknar upp listakosningar. Árið 1960 voru listakosningar aflagðar og var þess í stað kosið um einstaklinga en árið 1975 var aftur komið á flokkakerfi. 

Stúdentafylkingin Skrökva, félag flokksbundinna framapotara, sem Giedre kynntist í háskólanum, var stofnuð árið 2010. Fylkingin var að hluta til ádeila á aðrar fylkingar en hafði þó það skýra stefnumál að koma á möguleikanum á einstaklingsframboðum til Stúdentaráðs. Það varð að veruleika árið 2013 þegar fyrst var kosið í svokölluð sviðsráð. Þá bauðst nemendum í fyrsta skipti að bjóða sig fram utan flokka en þar til Giedre kom til sögunnar hafði enginn tekið það skref. Hún er því fyrsti „staki“ frambjóðandinn í yfir 40 ár.

Ástæðuna fyrir því að hún ákvað að bjóða sig fram með þessum hætti segir hún vera þá að hún hafi einfaldlega viljað prófa að ríða á vaðið og sjá hvað yrði.

„Það er líka gaman að koma til nýs lands og gera eitthvað svona sögulegt, koma við sögu háskólans og Stúdentaráðs. Nú er ég byrjuð að sjá kostina og gallana. Ég hef stuttan tíma til að kynna mig fyrir öllum. Enginn þekkir mig en allir þekkja Röskvu og Vöku. Kostirnir...j á, góð spurning,“ segir hún og skellihlær.

 „Það er gaman að geta gert þetta sem einstaklingur. Ég fæ að ákveða hvað ég vil og þarf ekki að ráðskast við neinn annan af því að ég er bara ein.“

Framboðsefni Giedre er fjörlegt en lágstemmt samanborið við veggspjöld og …
Framboðsefni Giedre er fjörlegt en lágstemmt samanborið við veggspjöld og kosningablöð fylkinganna.

Erlendir stúdentar í sérstakri stöðu

Vaka og Röskva gefa jafnan út kosningablöð ár hvert og þá yfirleitt með kosningaloforðum eða markmiðum fyrir hvert svið. Sem einstaklingur fer Giedre ekki út í slíka útgáfu en henni er sérstaklega umhugað um hag erlendra nema við skólann og þá helst samnemenda sinna í íslensku sem öðru máli sem er námsbraut til BA gráðu á hugvísindasviði.

„Ég vil draga athygli að því að við erum í sérstakri stöðu í háskólanum. Við erum ekki íslenskir nemendur en erum samt ekki erlendir skiptinemar. Við tölum íslensku en þó ekki fullkomlega. Við viljum æfa málið en getum kannski ekki tekið þátt í stúdentalífinu á sama hátt og Íslendingar gera.“

Hún segir marga erlenda nemendur oft ekki vita um alla þá möguleika sem háskólinn hefur upp á að bjóða, t.d. hvað varðar nemendafélög og stúdentapólitík. Verði hún kosin kveðst hún geta verið einskonar tengiliður milli þessa hóps og Stúdentaráðs.

Giedre segir framboði sínu hafa verið vel tekið. Henni hafi borist jákvæð skilaboð frá stúlku í Stúdentaráði, gríðarlegur stuðningur frá Skrökvu og jafnframt eigi hún gott bakland í námsfélögum sínum sem styðja við bakið á henni. 

Íslenskan er alvöru nám

 Giedre hefur mikinn áhuga á tungumálum og á Norðurlöndunum. Hún kom hingað til lands gagngert til þess að læra íslensku og hlaut til þess styrk frá Stofnun Árna Magnússonar. 

„Ég er á öðru ári núna sem er ógeðslega erfitt,“ segir hún, mæðuleg og glettin í senn. „Þetta er alvöru BA nám, ekki bara námskeið fyrir þá sem koma hingað til að vinna eða eitthvað slíkt. Stundum segi ég fólki að ég sé að læra íslensku í háskólanum og því finnst eins og ég sé bara erlendur skiptinemi sem kom á námskeið.“

Hún segir fólk ekki gera sér grein fyrir því í hverju gráðan felst og að námið feli ekki aðeins í sér grunnþekkingu á málinu heldur taki nemendur t.d. kúrsa í málvísindum og bókmenntafræði og það allt á íslensku. Má þess geta að samtal Giedre við mbl.is fer alfarið fram á íslensku enda talar hún málið eins og hún hafi búið hér í í fjölda ára en ekki aðeins síðan 2014.

„Ég vil hvetja Íslendinga til að tala íslensku við fólk sem talar ekki góða íslensku, að skipta ekki yfir í ensku strax. Ég veit það getur verið pínulítið pirrandi til að byrja með og að við notum ekki alltaf rétt fall, ég fékk sjálf ekki góða einkunn í beygingarfræði, en það er mikilvægt fyrir okkur að æfa málið.“

Við vinnslu fréttarinnar var notast við lokaritgerð Gunnars Harðar Garðarssonar Framboð gegn kerfinu. Fylkingar í Stúdentaráði Háskóla Íslands sem er aðgengileg á Skemmunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert