Erfitt að vera fáklæddar í sundi

Það getur verið erfitt fyrir konur sem tilheyra íslam að …
Það getur verið erfitt fyrir konur sem tilheyra íslam að vera fáklæddar eða í sundfötum fyrir framan ókunnuga karla, segir Matthildur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Eggert Jóhannesson

Hugmyndir um ásættanlega nekt innan íslam eru ólíkar því sem flestir eiga að venjast á Íslandi og ekki gilda sömu reglur fyrir karla og konur á þessu sviði. Í Danmörku hafa komið upp átök hvað varðar skólasund stúlkna sem tilheyra íslam en ekki hefur farið mikið fyrir slíkum málum hér á landi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrirlestri Matthildar Bjarnadóttur, meistaranema í trúarbragðafræðum, sem haldinn verður í Vídalínskirkju í kvöld.

Fyrirlesturinn ber yfirskriftina Geta múslimar farið í sund? og fjallar hann um hugmyndir innan íslam varðandi mannslíkamann, hreinlæti, nekt og samskipti kynjanna bæði hér á Íslandi og í mið-Austurlöndum. Matthildur leggur um þessar myndir lokahönd á meistaraverkefni sitt við Kaupmannahafnarháskóla og ræddi við mbl.is um fyrirlesturinn.

Vilja ekki dæturnar fari í skólasund

„Ég mun taka fyrir hugmyndir innan íslam varðandi mannslíkamann, nekt, hreinlæti og samskipti kynjanna með hliðsjón af íslenskri sundlaugamenningu. Mig langaði að vinna verkefni sem gæti nýst eitthvað hér heima.

Í Danmörku hafa komið upp heilmikil átök hvað varðar skólasund stúlkna sem tilheyra Islam en það hefur ekki farið mikið fyrir slíkum málum á Íslandi. Hugmyndir um ásættanlega nekt innan Islam eru ólíkar því sem við eigum að venjast á Íslandi og það gilda ekki sömu reglur fyrir konur og karla á því sviði,“ segir Matthildur.

Aðspurð segir hún átökin hafa falist í því að foreldrar vilji ekki að dætur þeirra fari í skólasund vegna þess að þá þurfi þær að vera fáklæddar fyrir framan drengi og/eða karlkyns kennara.

Karlmenn hylji sig frá nafla og niður að hnjám

„Það getur verið erfitt fyrir konur sem tilheyra íslam að vera fáklæddar eða í sundfötum fyrir framan ókunnuga karla. Innan íslam er mannslíkaminn mjög jákvætt fyrirbæri og í Kóraninum eru múslimar hvattir til að hugsa vel um hann og njóta þess að líða vel í eigin skinni.

Hins vegar er ósæmileg nekt skammarleg hjá báðum kynjum og margar reglur settar sem miða að því að virða líkamann, hylja hann rétt og forðast alls kyns óhreinleika,“ segir Matthildur.

Hún útskýrir að ósæmileg nekt geti verið mismunandi eftir hópum en oftast er þess krafist að konur hylji líkama sinn frá hálsi og niður að öklum. Sama krafa er gerð til til karlmanna á almannafæri en við ákveðnar aðstæður eins og til dæmis í baðhúsum eiga karlmenn að hylja sig frá nafla og niður að hnjám. Þessar reglur virðast ekki vera eins stífar fyrir karlmenn.

„Í vestrænni hugsun gæti þetta hljómað eins og ákveðin þversögn, að líkaminn sé góður og jákvæður og þess vegna eigi að hylja hann. Ég ætla að reyna að varpa ljósi á þessar hugmyndir, uppruna þeirra og áhrif ásamt ýmsu fleiru innan íslam.

Þetta verður ekki mjög þungur eða fræðilegur fyrirlestur heldur eru þessi fræðslukvöld ætluð fyrir meðal Jón og Gunnu sem hafa áhuga á að læra meira um trúarbrögð. Þetta á líka að vera skemmtilegt og skapa áhugaverðar umræður,“ segir Matthildur.

Fráleitt að læra nokkuð um trúarbrögðin

Vídalínskirkja tók upp á því að bjóða til sín fjórum trúarbragðafræðingum og halda jafn mörg fræðslukvöld til að auka þekkingu fólks og skilning á öðrum trúarbrögðum. Kveikjan að þessum kvöldum var m.a. koma flóttafólksins frá Sýrlandi og sú staðreynd að Ísland er stöðugt að verða fjölþjóðlegra land. Við státum okkur af því að vera vel menntuð þjóð og það er einmitt eiginleiki sem er gott að rækta. Þekking er það eina sem bítur á fordóma,“ segir Matthildur.  

Ég held að viðbrögðin við viðtalinu í DV við Jónu Hrönn Bolladóttur, sóknarprest í Vídalínskirkju, þar sem hún sagði frá þessu átaki hafi undirstrikað mikilvægi þess að halda svona fræðslukvöld. Það bar á miklum ótta gagnvart íslam í athugasemdakerfinu með fréttinni og margir töldu það alveg fráleita hugmynd að læra nokkurn skapaðan hlut um þessi trúarbrögð. Þessu er ég innilega ósammála. Við megum aldrei vera hrædd við að læra um og skilja annað fólk,“ bætir Matthildur við.  

Fyrsti fyrirlesturinn fjallaði um tilurð og uppgang hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam og flutti Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda, flutti erindið.

„Það var mjög áhugavert að læra um þessi samtök og Magnús gerði alls ekki lítið úr hættunni sem af þeim stafar. Hann vildi jafnvel meina að Vesturlönd hefðu of lengi lokað augunum fyrir því hversu miklum skaða þau væru fær um að valda. Með menntun og þekkingu kemur raunsæi og þannig eigum við síður á hættu á að annað hvort ofmeta eða vanmeta hugmyndir og hópa í kringum okkur,“ segir Matthildur.

„Það er flóknara að búa í fjölmenningarsamfélagi og í þeim aðstæðum verður fólk að vanda sig meira í samskiptum. Hins vegar fylgja því líka ótvíræðir kostir að fá hingað fólk með öðruvísi viðhorf, þekkingu og hefðir. Það koma alltaf upp árekstrar og verkefni sem þarf að leysa þegar samfélag verður flóknara en ef okkur tekst að finna lausnir á þeim vandamálum sem upp koma þá er gróðinn af fjölskrúðugu samfélagi svo margfalt meiri en kostnaðurinn við að finna leiðir til að lifa saman. Það versta sem við gerum er að hundsa náungann og einangra fólk félagslega,“ segir Matthildur að lokum.

Einnig verða fræðslukvöld þriðjudagskvöldin 9. – 16. febrúar og fara þau einnig fram í Vídalínskirkju. Allir fyrirlestrarnir hefjast kl. 20 og er aðgangur ókeypis.

Kátir drengir á fallegum sumardegi í einni af sundlaugum Reykjavíkurborgar. …
Kátir drengir á fallegum sumardegi í einni af sundlaugum Reykjavíkurborgar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli
Konur sem tilheyra íslam eiga í flestum tilvikum að hylja …
Konur sem tilheyra íslam eiga í flestum tilvikum að hylja líkama sinn frá hálsi og niður að ökklum í baðhúsum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert