Manndráp eða vanræksla?

Sigurður Hólm SIgurðsson lést í fangaklefa sínum 17. maí árið …
Sigurður Hólm SIgurðsson lést í fangaklefa sínum 17. maí árið 2012. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Brynjar Gauti

Tveir alræmdustu handrukkarar Íslands eru ákærðir fyrir að valda dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni. Dómarar í málinu þurfa að skera úr um hvort að þeir hafi gengið í skrokk á manninum eða hvort þeir hafi verið rangir menn á röngum stað þegar áralöng fíkniefnaneysla gerði loks út af við hann.

Aðalmeðferð málsins gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni lauk í Héraðsdómi Suðurlands á sunnudag. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar, samfanga þeirra á Litla-Hrauni, 17. maí árið 2012. Við hana drógu saksóknari og verjendur upp ólíka mynd af atburðunum í fangelsinu þennan örlagaríka vordag.

Sigurður kom í fangelsið til að afplána dóm daginn áður en hann lést. Fangaverðir sem báru vitni í málinu sögðu að hann hafi verið magur, verið veiklulegur og borið augljós merki um að vera í fráhvörfum. Hann hafi fengið lyf gegn fráhvörfunum. Þó að ástand hans hafi virst bágborið, hafi það ekki verið verra en hefðbundin fráhvörf.

Um þessar staðreyndir er lítið deilt en það sem gerðist næst er það sem dómari og tveir sérfróðir meðdómendur þurfa að leggja mat á næstu fjórar vikurnar.

Útgáfa ákæruvaldsins

Upptökur úr öryggismyndavélum á Litla-Hrauni sýna að Annþór og Börkur ræddu við Sigurð í eldhúsi fanganna og fylgdu honum inn í klefa hans. Skömmu síðar var hann látinn. Tvímenningarnir eru sakaðir um að hafa veitt Sigurði högg eða spark í klefanum sem olli því að milta hans rifnaði. Hann hafi látist úr innvortis blæðingu af völdum þess.

Engin vitni eru til staðar um hvað fór á milli Sigurðar og fanganna tveggja og því hefur Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari þurft að byggja á líkum um málsatvikin.

Þessu til stuðnings teflir saksóknari fram áliti þýsks réttarmeinafræðings sem krufði lík Sigurðar. Niðurstaða hans var sú að blæðingin hafi verið banamein hans og að ytri áverki hafi líklegast valdið sárinu á miltanu. Undirmatsmaður, íslenskur réttarmeinafræðingur sem starfar í Bandaríkjunum, sem fór yfir krufningarskýrsluna var sama sinnis.

Börkur Birgisson mætir í Hæstarétt í október árið 2013. Þar …
Börkur Birgisson mætir í Hæstarétt í október árið 2013. Þar var hann dæmdur í sex ára fangelsi. mbl.is/Rósa Braga

Ennfremur byggir saksóknari á mati tveggja íslenskra sálfræðinga á hegðun og atferli Annþórs og Barkar á hljóðlausri myndbandsupptöku þar sem þeir voru með Sigurði í eldhúsi fangelsisins. Mat þeirra var að atferli þeirra mætti túlka sem ógnandi í garð Sigurðar. Þannig hafi Annþór til dæmis neitað að taka í útrétta hönd Sigurðar og Börkur hellt úr mjólkurglasi sem Sigurður drakk úr. Þá hafi þeir elt hann úr eldhúsinu inn í klefa hans.

Um mögulegar ástæður þess að þeir félagar hafi viljað vinna Sigurði mein fór tvennum sögum. Þannig hafi þeir talið að Sigurður skuldaði fé vegna hurðar sem hann hafði skemmt á gistiheimili einhverju áður. Annþór viðurkenndi í vitnisburði sínum að Sigurður hafi verið búinn að samþykkja að greiða 50.000 krónur vegna hurðarinnar. Það mál hafi hins vegar verið afgreitt og þeir hafi ekki átt neitt sökótt.

Öllu umdeildari var framburður lögreglumanns sem kom fyrir dóminn. Hann bar að um einum og hálfum mánuði fyrir dauða sinn hafi Sigurður sagt sér að Annþór og Börkur hafi sífellt reynt að kúga hann til að fremja innbrot fyrir sig. Þeir hafi ekki linnt látum fyrr en Sigurður stakk Annþór með sprautunál sem hann fullyrti við hann að væri sýkt.

Engir aðrir en lögreglumaðurinn voru til frásagnar um þessa sögu. Hann hóf hvorki rannsókn á því máli í kjölfarið né skrifaði skýrslu um það fyrr en eftir dauða Sigurðar.

Útgáfa verjendanna

Örlög Sigurðar Hólm voru öll önnur samkvæmt framburði Annþórs og Barkar og málflutningi verjenda þeirra, Sveins Guðmundssonar og Hólmgeirs Elíasar Flosasonar. Hann hafi í raun verið fórnarlamb vanrækslu fangelsisyfirvalda. Við komuna í fangelsið hafi hann verið lasburða og í fráhvörfum eftir mikla fíkniefnaneyslu. Honum hafi verið gefin lyf við fráhvörfum þrátt fyrir að læknir hafi aldrei skoðað hann eftir að hann hóf afplánunina.

Daginn sem Sigurður lést hafi Annþór og Börkur verið nýkomnir af fótboltaleik fanganna á Litla-Hrauni. Börkur hafi haft það hlutverk að passa upp á fótboltatreyjurnar sem ekki hafi verið vanþörf á enda væri mikið af glæpamönnum á Hrauninu og þeir stælu gjarnan treyjunum, eins og Annþór lýsti því.

Í eldhúsinu hafi þeir rætt á vinsamlegum nótum við Sigurð. Heilsa hans hafi hins vegar ekki verið upp á marga fiska. Honum hafi liðið illa og verið flökurt vegna subutex-töflu, morfínskylds lyfs, sem hann hafi tekið skömmu áður. Þeim Annþóri og Berki hafi þótt vænt um Sigurð og haft áhyggjur af heilsu hans.

Lög­reglumenn fær­a Annþór fyr­ir dóm í Héraðsdómi Reykjaness þar sem …
Lög­reglumenn fær­a Annþór fyr­ir dóm í Héraðsdómi Reykjaness þar sem hann var dæmdur í sjö ára fangelsi árið 2012. Dómurinn var staðfestur í Hæstarétti árið eftir.

Annþór sagðist hafa það fyrir reglu að taka ekki í hendur fanga sem væru í fíkniefnaneyslu þar sem hann vissi af langri reynslu að þeir geymdu efnin gjarnan uppi í rassgatinu á sér. Því hafi hann ekki viljað taka í hönd Sigurðar. Um mjólkurglas Sigurðar sagðist Börkur hafa hellt því í vaskinn því að hann hafi verið umsjónarmaður eldhússins þennan dag og Sigurður hafi verið hættur að drekka úr glasinu.

Um ástæðu þess að þeir fylgdu Sigurði inn í klefa sagði Annþór að hann hafi ráðlagt samfanga sínum að láta fangaverðina ekki sjá sig undir áhrifum. Samræður þeirra hafi því haldið áfram inni í klefanum. Eftir þær hafi Annþór farið í sturtu enda löðrandi sveittur eftir fótboltann. Börkur hafi hins vegar komið til sín þegar hann var að klára sturtuna og sagt eitthvað ama að Sigurði.

Þá hafi Sigurður legið í klefa sínum, verið ælandi upp í sig og virtist Annþóri sem hann ætti erfitt með andardrátt. Annþór hafi því kallað á aðra fanga og fangaverði. Þeir síðarnefndu hafi hins vegar verið seinir til svara.

Óáreiðanleg vitni

Verjendurnir halda því fram að Sigurður hafi einfaldlega farið í hjartastopp vegna fíkniefnaneyslu sinnar og lélegs líkamlegs ástands og það væri ekki í fyrsta skipti sem fangi létist af þeim sökum. Það hafi svo verið endurlífgunartilraunir fangavarða, læknis og sjúkraliða sem komu á vettvang sem hafi valdið rofinu á milta Sigurðar.

Beittu þeir meðal annars fyrir sig erlendum réttarmeinafræðingum sem töldu útilokað að miltað hafi getað verið rofið með höggi eða sparki án þess að nokkur önnur merki væri að finna um það á húð hans eða mjúkvef. Sérfræðingar sem saksóknari tefldi fram voru hins vegar á öðru máli og töldu það vel mögulegt. Það væri ennfremur ómögulegt að þeir tveir lítrar blóðs sem voru í kviðarholi Sigurðar hafi komið úr lítilli rifu á miltanu eftir að hann hafði þegar tapað lífsmarki. Lyfin sem hann tók hafi heldur ekki getað valdið dauða hans.

Lítið virtist vera hægt að byggja á framburði annarra fanga sem komu fyrir dóminn sem sýndust jafnvel sumir vera í annarlegu ástandi. Saksóknari sá í það minnsta ástæðu til að spyrja einn þeirra sérstaklega hvort hann væri undir áhrifum þegar hann settist í vitnastól. Því neitaði fanginn þó.

Fanginn sem gaf Sigurði subutexið sagðist í fyrstu hafa gengið út frá því að hann hafi valdið dauða hans með því. Hann hafi hins vegar síðar orðið þess áskynja á öðrum föngum að Annþór og Börkur hafi gengið frá Sigurði. Aðrir fangar sem komu fyrir dóminn báru á móti að sá hafi farið um og boðið þeim og öðrum fíkniefni og fleira gegn því að þeir bæru vitni gegn tvímenningunum.

Upptökur úr öryggismyndavélum á Litla-Hrauni voru meðal annars notaðar við …
Upptökur úr öryggismyndavélum á Litla-Hrauni voru meðal annars notaðar við rannsókn málsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sekt eða sakleysi

Dómaranna bíður vandasamt verk. Maður er látinn, engin vitni voru að dauða hans og einu líkamlegu áverkanir sem voru að finna á líki hans voru lítil rifa á milta. Það sem bendlar Annþór og Börk við dauða Sigurðar er að þeir voru í klefa hans rétt áður en hann lést og að sérfræðingar telja að ofbeldi geti hafa valdið innvortis áverkunum sem fundust við krufningu án annarra sýnilegra áverka.

Við þetta bætist mat tveggja sálfræðinga sem telja mögulegt að túlka hegðun tvímenninganna á lélegri og hljóðlausri upptöku sem ógnandi í garð Sigurðar. Erlendir sálfræðingar sem verjendurnir kölluðu til gerðu lítið úr aðferðfræðinni og töldu hana óáreiðanlega.

Þá er enn ótalin frásögn lögreglumanns af sögu sem Sigurður á að hafa sagt honum skömmu fyrir dauða sinn um að hann hefði stungið Annþór með sprautunál og sagt honum að hún væri sýkt.

Hvort allt þetta nægi til þess að sakfella mennina tvo fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar skal ósagt látið. Dómur ætti að liggja fyrir innan fjögurra vikna. Óháð honum munu þeir Annþór og Börkur sitja áfram í fangelsi því þeir afplána enn sex og sjö ára dóma sem þeir hlutu fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæta nauðung, frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar sem þeir hlutu í október árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert