Mótmæla skertri þjónustu á Akureyrarflugvelli

Frá Akureyrarflugvelli.
Frá Akureyrarflugvelli. mbl.is/Skapti

Þrír þingmenn norðausturkjördæmis kvöddu sér hljóðs á Alþingi til þess að mótmæla áformum Isavia um að skerða flugumferðarstjórn á Akureyrarflugvelli. Þeir telja að með þessu verði þjónustu- og öryggisstig flugvallarins, sem sé meðal annars miðstöð sjúkraflugs, skert.

Erfiðlega hefur gengið að manna flugumferðarþjónustu á Akureyrarflugvelli með eingöngu flugumferðarstjórum. Á meðan verið er að þjálfa nýtt starfsfólk hefur Isavia ákveðið að bjóða tímabundið aðeins flugumferðarstjórn á daginn en flugupplýsingaþjónustu á kvöldin og sem bakvakt. Þetta ástand eigi að ríkja fram á vor.

Í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Isavia er því hafnað að með þessu sé verið að skerða flugumferðarþjónustu eða öryggisstig Akureyrarflugvallar. Einnig hafnar fyrirtækið því að sparnaðarsjónarmið ráði för.

Verða að vera á sömu blaðsíðu um öryggi

Engu að síður lýstu þau Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokknum, áhyggjum sínum af breytingunum á þjónustunni á flugvellinum í ræðum á Alþingi í dag. 

Steingrímur benti á að Akureyrarflugvöllur væri miðstöð sjúkraflugs í landinu sem þyrfti að hafa tryggan aðgang að flugumferðarþjónustu allan sólahringinn árið um kring. Þórunn tók undir það og sagðist telja mikilvægt að þessi þjónusta væri ekki skert. Gagnrýndi hún að stefnt væri að því að manna vaktir með starfsmönnum sem hefðu ekki réttindi til að veita radarþjónustu þannig að það öryggi sem hún veitir verði ekki til staðar þegar þeir eru á vakt.

„Ágreiningur virðist um túlkun á því hvað skert þjónusta er. Það gengur ekki og menn verða að vera á sömu blaðsíðunni þegar mál sem varða öryggi og mikilvæga þjónustu eru rædd,“ sagði Þórunn.

Valgerður hafnaði fullyrðingum Isavia um að öryggi væri ekki skert á flugvellinum með breytingunum á þjónustunni þar. Þjónustustig og öryggi verði miklu minna en áður hafi verið.

„Á Akureyrarflugvelli þar eru mjög sérstakar aðstæður. Þar er fjallahringur allt í kringum völlinn og það þarf á að halda þeirri þjónustu sem menntaðir flugumferðarstjórar geta veitt og það er nauðsynlegt að hafa þar radar. Nú þegar fyrir liggur að þangað eigi að hefja millilandaflug er alveg ljóst að þetta er aðgerð sem ekki getur gengið eftir,“ sagði Valgerður sem segist hafa óskað eftir því að stjórnendur Isavia verði kölluð á fundi fjárlaganefndar til að ræða þessi mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert