Arion augljóslega reistur á brauðfótum

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.s/Rax

Kaupþing var aldrei hæfur til að verða nýr banki og hefði átt að fara í þrot í stað þess að vera endurreistur. Nýi bankinn var augljóslega reistur á miklum brauðfótum. Þetta sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, á opnum fundi nefndarinnar fyrir fjölmiðla í dag. Voru fulltrúar Fjármálaeftirlitsins mættir á staðinn til að svara spurningum nefndarmanna.

Lítið var um bein svör þar sem fulltrúar eftirlitsins óskuðu eftir tíma til að fara yfir flóknar spurningar og senda svör til nefndarinnar innan tíðar. Ljóst var að meðal þess sem Vigdís og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, leituðust eftir á fundinum var að fá aðgang að gögnum sem talið er að  fjármálaráðuneytið hafi undir höndum en hefur ekki viljað afhenda nefndinni. Þau gögn innihalda meðal annars hluthafasamkomulag milli ríkisins og slitabús Kaupþings við stofnun Arion banka. Ítrekuðu þau beiðni þess efnis til fulltrúa eftirlitsins.

Snýst um 2,5 milljarða vaxtakostnað sem féll á ríkið

Yfirskrift fundarins var vaxtakostnaður vegna stofnunar Arion banka, en Morgunblaðið fjallaði um málið í byrjun janúar. Þar var greint frá svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að ríkið fengi ekki bættan 2,5 milljarða vaxtakostnað sem féll til við stofnun bankans. Sagði ráðuneytið ástæðuna vera langan tíma sem það tók Fjármálaeftirlitið að veita Kaupskilum, dótturfélags slitabús Kaupþings sem fer með hlut þess í Arion banka, heimild til að fara með ráðandi hlut í bankanum.

Fjármálaeftirlitið svaraði þessum ásökunum strax og sagði ekki rétt að stofnunin hafi valdið þessum kostnaði. Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri eftirlitsins, sat fyrir svörum á nefndarfundinum í dag og sagði hann rétt að kostnaður hafi fylgt því að málið dróst á langinn og kallaði hann málið tjón fyrir ríkið. Hann segist þó ekki sammála frétt Morgunblaðsins að það hafi verið af völdum eftirlitsins og sagðist skilja svar ráðuneytisins á annan hátt.

Segir Kaupþing hafa verið vanfjármagnað af slitabúinu

Á fundinum fór Vigdís yfir skýrslu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra um endurreisn bankanna sem kom út 2011, svör fjármálaráðuneytisins við spurningum Morgunblaðsins og viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við málinu. Sagði hún að þarna væri mismunandi skýringar hjá öllum og að málið varðaði 2,5 milljarða sem enduðu með að falla á ríkið og þar með skattgreiðendur. Sagði hún að svo virtist vera sem að Kaupþing hafi verið vanfjármagnað af Kaupskilum í upphafi og aðeins lagt til 100 milljónir í stofnfjárframlag. Sagði hún við það tækifæri að bankinn hefði augljóslega verið reistur á miklum brauðfótum.

Vill aðgang að gögnum um endurreisn bankakerfisins

Vigdís hefur að undanförnu gagnrýnt fjármálaráðuneytið fyrir að takmarka aðgang að gögnum sem varða endurreisn bankakerfisins, en komið var upp gagnaherbergi sem aðeins þingmenn hafa aðgang að. Þurfa þeir að undirrita trúnaðaryfirlýsingu til að skoða gögnin. Þá hefur Vigdís sagt að átt hafi verið við gögnin og að ýmislegt vanti í þau. Segir hún málið refsivert og grafalvarlegt. Meðal gagna sem Vigdís hefur sagt að vanti séu fundargerðir sem tengjast stofnun nýju bankanna frá árinu 2009.

Málið snýst um kostnað vegna endurreisnar Arion banka, en 2,5 …
Málið snýst um kostnað vegna endurreisnar Arion banka, en 2,5 milljarða vaxtakostnaður féll á ríkið vegna þess. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Hvernig datt ykkur það í hug?“

Vigdís spurði fulltrúa eftirlitsins í dag af hverju fyrrnefndur dráttur hefði verið á að samþykki væri gefið fyrir að Kaupskil færu með ráðandi hlut í Arion. Sagði Jón Þór að það væru málefnalegar skýringar á því og að dregist hefði að eftirlitið fengi öll gögn um málið og gæti þar af leiðandi tekið ákvörðun um það. Vigdís spurði þá af hverju ábyrgðin af þessum drætti hafi öll verið sett á ríkið og skattgreiðendur en ekki Kaupskil. „Hvernig datt ykkur það í hug?“ spurði hún. Jón Þór svaraði að leita yrði skýringa í hluthafasamkomulagi ríkisins og hluthafa bankans. Greip Vigdís þann bolta og spurði til baka hvort eftirlitið hefði samkomulagið undir höndum. Sagði Jón Þór að skoða þyrfti það, hann gæti ekki svarað því á staðnum. Óskaði Vigdís eftir að fá það sent til nefndarinnar ef eftirlitið hefði það undir höndum.

Minnihlutinn segir fundinn tímasóun

Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu tilhögun fundarins og boðun hans, en Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði hann hafa verið tímasóun. Það væri óraunhæft að demba svona spurningum á fulltrúa eftirlitsins án þess að þeir hafi getað undirbúið sig eða komið með viðhlítandi gögn. Þá hafi minnihlutinn fengið litlar upplýsingar um málið og einnig átt í erfiðleikum með undirbúning. Undir þetta tóku Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna og Brynhildur Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar.

Guðlaugur svaraði því til að það væri ekki hlutverk meirihlutans að undirbúa minnihlutann og að allir hefðu átt að þekkja til málsins. Þá væri skýrslan sem mikið væri vísað til frá því 2011 og málið talsvert komið fram í fjölmiðlum að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert