Fjórir staðir mega sýna Super Bowl

Úrslitaleikurinn í Super Bowl verður sýndur í beinni útsendingu.
Úrslitaleikurinn í Super Bowl verður sýndur í beinni útsendingu. Skjáskot af Google maps

Fjórir skemmtistaðir í Reykjavík hafa fengið leyfi til að sýna úrslitaleik bandaríska fótboltans, Super Bowl, aðfaranótt mánudags.  

Einar Sturla Möinichen rekur tvo þeirra, Glaumbar og Hressingarskálann/Bjarna Fel Sportbar.

„Þetta var þungt ferli. Ég fékk leyfisbréfið áðan en sótti um fyrir fimm vikum síðan,“ segir Einar. „Borgarráð tók þetta fyrir í gær, lögreglan gaf neikvæða umsögn seinni partinn í gær en svo jákvæða aftur. Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins sendi mér svo leyfið í morgun.“

Einar sótti um leyfi til að sýna leikinn á báðum stöðunum í fyrra en fékk aðeins leyfi fyrir Glaumbar, sem var eini barinn í Reykjavík sem mátti sýna leikinn. 

Hann er mjög ánægður með að hafa fengið leyfið núna en leikurinn hefst um klukkan tíu á sunnudagskvöld og lýkur honum í kringum fjögur um nóttina.

American Bar í Austurstræti og Ölver í Glæsibæ fengu einnig leyfi til að sýna leikinn, ásamt fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Spot í Kópavogi.

Super Bowl verður haldinn í fimmtugasta sinn aðfaranótt mánudags.
Super Bowl verður haldinn í fimmtugasta sinn aðfaranótt mánudags. AFP

Ánægjuleg þróun 

Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, segir það mjög ánægjulegt að þessum stöðum hafi verið veitt leyfi til að sýna leikinn. „Það er mjög ánægjuleg þróun að þessir staðir mega framlengja opnunartíma sinn vegna þess að það eftirspurn eftir þessum leik, bæði hjá erlendum ferðamönnum sem eru í borginni og erlendum aðilum sem eru búsettir hér,“ segir Gunnar Valur.

„Það sem er gagnrýnivert er að leyfin mættu vera veitt með meiri fyrirvara. Það er ekki nógu gott upp á að menn hafi tíma til að vekja athygli á því að þeir ætli að sýna viðburðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert