Vildi fá sígarettu og kleinu

Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir hylmingu, þjófnað, fíkniefnalagabrot, fjársvik, umferðarlagabrot og líkamsárás. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt. Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi Reykjavíkur 27. janúar.

Maðurinn, Þorbergur Bergmann Halldórsson, stal meðal annars matvöru úr Bónus Kjörgarði, Hagkaup Eiðistorgi, Krónunni, Bónus Holtagörðum, Vínbúrðinni og fleiri verslunum. Maðurinn tók út vörur í Skalla í Árbæ að andvirði 24.400 krónur og að andvirði 5.155 krónur í versluninni Breiðholtsblóm.

Þá réðst hann á fyrrverandi unnustu sína á heimili hennar. Tók hann hana hálstaki og skellti henni í gólfið með þeim afleiðingum að hún hlaut tvö rauð strik á hálsi og eymsli þar undir, marbletti á upphandlegg, marblett á vinstri úlnlið, marblett í vinstri lófa, stórt mar á utanverðu vinstra læri og mar á utanverðum vinstri kálfa.

Í september á síðasta ári tók hann leigubíl og fékk bílstjórann til að aka með sig víðsvegar um höfuðborgarsvæðið án þess að hafa möguleika á því að greiða reikninginn að fjárhæð 16.800 kr.  Þá ruddist hann heimildarlaust inn í íbúðarhús í Vogum þar sem húsráðendur komu að honum gramsandi í úlpuvösum.

Þá barði hann að dyrum á íbúðarhúsi og eftir að húsráðandi opnaði dyrnar ruddist hann heimildarlaust inn, var ógnandi og krafðist þess að húsráðandi hringdi fyrir sig á leigubíl og gæfi sér sígarettu og kleinu.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur segir að hann sé vanaafbrotamaður og hafi verið dæmdur í meira en sjö ára fangelsi á árunum 1999 – 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert