Karlmenn noti smokka eftir ferðalag til Mið- og Suður-Ameríku

Zíkaveiran berst helst í menn með biti moskítóflugna.
Zíkaveiran berst helst í menn með biti moskítóflugna. AFP

Sóttvarnalæknir hefur gefið út nýjar leiðbeiningar um varnir gegn Zíkaveiru í ljósi nýrra upplýsinga um að veiran geti smitast manna á milli með kynmökum.

Þetta kemur fram á vef landlæknis.

Algengasta smitleiðin er enn talin vera með moskítóflugum en þar sem veiran hefur fundist í sæði í allt að 3–4 vikur eftir sýkingu þá eru karlmenn hvattir til að nota smokka í 4 vikur eftir ferðalag til landa í Mið- og Suður-Ameríku þar sem útbreiðsla Zíkaveiru hefur verið hvað mest.

Þungaðar konur eru áfram hvattar til að ferðast ekki til þessara landa nema brýna nauðsyn beri en allir ferðamenn á þessum svæðum eru hvattir til að nota varnir gegn stungu moskítóflugna.

Zíkaveira telst til svokallaðra flaviveira en meðal þeirra eru beinbrunaveira (Dengue) og guluveira (Yellow fever). Zíkaveiran, sem berst í menn með stungum moskítóflugna, uppgötvaðist fyrst í Mið-Afríku á fimmta áratug síðustu aldar en sýking af völdum veirunnar var talin sjaldgæf og bundin við Afríku og Asíu.

Vorið 2015 varð vart við mikla útbreiðslu Zíkaveiru í Brasilíu. Samtímis því varð vart við aukningu á fósturskaða sem leiddi til vanþroska á heila barnsins (microcephaly).

Þann 1. febrúar 2016 kom yfirlýsing frá aðalframkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að aukning á höfuðsmæð og vansköpunum í miðtaugakerfi barna í Brasilíu og Frönsku Polynesíu sé bráð ógn við lýðheilsu sem varðar þjóðir heims. Bráðanefnd Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninnar (WHO) var kölluð saman vegna þessa og í áliti hennar kemur fram að sterkt samband sé á milli Zíkaveirusýkingar á meðgöngu og höfuðsmæðar þó ekki sé búið að sýna óyggjandi fram á orsakasamband. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert