Baldur metur hæfni umsækjenda

Baldur Guðlaugsson.
Baldur Guðlaugsson. mbl.is/Kristinn

Baldur Guðlaugsson lögfræðingur hefur verið skipaður formaður hæfisnefndar sem á að meta umsækjendur um starf skrifstofustjóra í atvinnuvegaráðuneytinu sem var nýverið auglýst til umsóknar. 

Þetta kemur fram á vef Kjarnans, en þar segir að alls hafi 38 manns sótt um starfið.

Fram kemur, að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi skipað nefndina, sem þau Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Helga Hlín Hákonardóttir lögfræðingur eigi einnig sæti í. 

Það segir, að starfið sem um ræði sé starf skrifstofustjóra viðskipta-, nýsköpunar og ferðaþjónustu sem hafi nýlega auglýst laust til umsóknar. Alls sóttu 38 manns um starfið, samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu. 

Ríkissaksóknari ákærði Baldur í október 2010 fyrir innherjasvik með því að hafa í september 2008, í aðdraganda bankahrunsins, selt hlutabréf sín í Landsbankanum þrátt fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum um bankann sem hann varð áskynja um í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og þá einkum vegna setu sinnar í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Baldur í tveggja ára fangelsi í apríl árið 2011 og staðfesti Hæstiréttur dóminn í febrúar 2012. Baldur lauk afplánun 2013 og síðan þá hefur hann starfað sem ráðgjafi á lögmannsstofunni LEX. 

Þriggja manna hæfnisnefndir eru venjulega skipaðar þegar auglýst eru störf ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum, að því er segir í frétt Kjarnans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert