Flughált víða um land á morgun

Eftir stillt og gott veður helgarinnar bætir í vind og …
Eftir stillt og gott veður helgarinnar bætir í vind og er spáð allt að 25 metrum á sekúndu um austanvert landið. mbl.is/Eggert

Búast má við flughálku í fyrramálið víða um land skv. upplýsingum frá Veðurstofu Íslands en spáð er suðaustan stormi víðast hvar á landinu. Að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, má vænta slyddu eða rigningar með morgninum en búast má við því að veður verði verst suðaustanlands.

Vindasamt verður á Austurlandi þar sem vindur fer upp í 20 til 25 metra á sekúndu. Þorsteinn segir það taka að hvessa um allt land upp úr hádegi á morgun, en lægja tekur aftur vestanlands annað kvöld. 

Veðurvefur mbl.is: Veðurkort

Á þriðjudag verður öllu verra veður að sögn Þorsteins. Þá er spáð miklum vestan hvelli á þriðjudagsmorgun. Segir hann að búast megi við algjöru vetrarveðri og að kólna muni aftur aftur. 

Veður næsta sólarhringinn:

Hægviðri og þykknar smám saman upp.
Suðaustan 10-18 m/s og snjókoma eða slydda SV- og V-lands upp úr miðnætti en 15-23 og rigning eða slydda í fyrramálið. Lægir mikið vestantil á landinu seint á morgun, austan 8-13 um kvöldið.

Gengur í SA 13-20 á austanverðu landinu með morgninum, en hvassari á stöku stað. Snjókoma eða slydda með köflum NA- og A-lands en mikil rigning SA-til.
Hlýnar í veðri, frostlaust á landinu eftir hádegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert