„Er aðeins að kíkja á lífið“

Katrín Júlíusdóttir tilkynnti að hún myndi hætta á þingi eftir …
Katrín Júlíusdóttir tilkynnti að hún myndi hætta á þingi eftir næstu kosningar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Katrín Júlíusdóttir, alþingiskona og fyrrum iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti í dag að hún hygðist hætta á þingi eftir næstu kosningar. Hún segir ákvörðun sína vera persónulega og að það hafi verið kominn tími til að líta í kringum sig eftir 14 ár á þingi.

Frétt mbl.is: Katrín hættir á Alþingi

„Ég er aðeins að kíkja út á lífið,“ segir Katrín glaðlega í samtali við mbl.is. Hún segist ekki útiloka neitt í tengslum við pólitíska þátttöku í framtíðinni , en að hún hafi fundið að nú væri rétti tíminn til að breyta til og snúa sér að öðru.

Svigrúm og tími til að íhuga varaformannsframboð

Að undanförnu hefur fylgi Samfylkingarinnar dregist nokkuð saman í skoðanakönnunum. Katrín segir ákvörðun sína ekki tengjast því heldur hafi hún verið búin að taka ákvörðunina. Nú þegar ákveðið hafi verið að boða til landsfundar í sumar hafi hún talið rétt að láta vita af ákvörðun sinni og að hún hygðist ekki heldur bjóða sig fram áfram sem varaformaður flokksins. Segir hún þetta gefa fólki sem hafi hug á að bjóða sig fram í það embætti svigrúm og tíma til að stíga fram.

Hún segir að undanfarið hafi flokkinn skort svör, en þegar sú staða sé uppi grípi Samfylkingin til lýðræðisins með forystukjöri og málefnastarfi. „Ég á von á því að þar komi fram öflugur og samheldinn flokkur með skýrt erindi,“ segir Katrín.

„Þetta eru stórar spurningar sem jafnaðarmenn þurfa að svara“

Aðspurð um helstu málefni sem flokkurinn þurfi að horfa til núna segir hún að flokkurinn þurfi aftur að ydda áherslur sínar í tengslum við atvinnulífið og í alþjóðamálum. Segir hún að taka þurfi ákvörðun um með hvaða hætti flokkurinn vilji tala við atvinnulífið til að efla það. Þá séu húsnæðismálin mjög stór og sérstaklega fyrir ungt fólk.

Þá segir hún að flokkurinn þurfi að mynda sér skoðanir til lengri tíma litið varðandi fjármálakerfið. „Þetta eru stórar spurningar sem jafnaðarmenn þurfa að svara,“ segir hún og bætir við að fara þurfi yfir hvaða umhverfi verði boðið upp á í húsnæðismálum og varðandi fjármögnunarkostnað fyrirtækja. Á hún þar við peningakerfið og segir stór vandamál vera með krónuna. „Við þurfum að spyrja okkur,“ segir Katrín og bætir við „ætlum við að halda áfram að bjóða fyrirtækjum og húsnæðiseigendum upp á hæsta fjármögnunarkostnaðinn í þessum heimshluta?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert