Bestu auglýsingar ársins kynntar

Hugsaðu um eigin rass er ætlað að vekja athygli á …
Hugsaðu um eigin rass er ætlað að vekja athygli á ristilkrabbameini í tengslum við Mottumars. mynd/Brandenburg

Guðmundur, Sorpanos og dillandi rassar meðal annarra etja í ár kappi um íslensku auglýsingaverðlaunin, Lúðurinn, sem verða afhent 4. mars n.k. á ÍMARK deginum. Tilnefningar til þeirra hafa verið kynntar og má sjá þær í heild á ÍMARK síðu mbl.is.

Þar kennir ýmissa grasa en tilnefnt er í fjölda flokka: Kvikmyndaðar auglýsingar, útvarpsauglýsingar, prentauglýsingar, vefauglýsingar, samfélagsmiðlar, umhverfisauglýsingar og viðburðir, veggspjöld og skilti, bein markaðssetning, mörkun - ásýnd vörumerkis, herferð, almannaheillaauglýsingar, og loks fyrir árangursríkustu auglýsingaherferðina.

ÍMARK dagurinn verður haldinn í Háskólabíói og verða í boði fyrirlestrar frá Dom Boyd (auglýsingastofunni adam&eveDDB), Karina Kjærgaard (LEGO), Mark van der Heijden (hugmyndasmiður) og Jenny Hermanson (Spotify). Sú dagskrá hefst kl. 9. Lúðrahátíðin hefst svo kl. 18. Miða má nálgast hér.

Flestar tilnefningar auglýsingastofa hlaut Brandenburg með sautján en þar á eftir voru Pipar/TBWA með tólf og Íslenska auglýsingastofan með átta.

Raunir Helga Björnssonar og félaga í Sorpanos uppskáru vel fyrir Brandenburg enda ljóst að vel þarf að vanda til verka þegar urða skal lík...neski. Sorpanos er tilnefnt í flokkum herferða, kvikmyndaðra auglýsinga og útvarpsauglýsinga. Auk þeirra kumpána frá Sorpu eru auglýsingar fyrir WOW tilnefndar í þremur flokkum.

#AskGudmundur, frá Íslensku auglýsingastofunni, hlaut einnig þrjár tilnefningar, sem herferð, fyrir samfélagsmiðlun og sem árangursríkasta auglýsingaherferðin. Þar er land og þjóð kynnt fyrir útlendingum jafnframt sem einsleitni nafngifta og viðmótsþýðni Íslendinga er hampað.

Sem fyrr segir má sjá tilnefningarnar í heild á ÍMARK síðu mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert