Greta Salóme vann með yfirburðum

Greta Salóme Stefánsdóttir flytur lag sitt Hear Them Calling, eða …
Greta Salóme Stefánsdóttir flytur lag sitt Hear Them Calling, eða Raddirnar. Pressphotos.biz

Lag Gretu Salóme Stefánsdóttur, Hear Them Calling,  fékk um fimmtán þúsund fleiri atvæði en lagið Now í lokaeinvíginu í  Söngvakeppninni um síðustu helgi.

Hear Them Calling hlaut 51.576 atkvæði, eða rúm 60%, á meðan Now fékk 36.880 atkvæði, eða tæp 40%.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

Hear Them Calling verður  fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni sem fram fer í Stokkhólmi í Svíþjóð dagana 10.-14. maí 2016. Framlag Íslands keppir í fyrri undanriðlinum hinn 10. maí.

Lagið Now sem Alda Dís flutti, hlaut tæp 40% atkvæða …
Lagið Now sem Alda Dís flutti, hlaut tæp 40% atkvæða í einvíginu.

Alls kepptu 12 lög í Söngvakeppninni þetta árið og þjóðin ákvað í hreinni símakosningu hvaða sex lög kæmust í úrslit. Samtals voru greidd 22.253 atkvæði í fyrri forkeppninni sem fram fór laugardaginn 6. febrúar  og í seinni forkeppninni 13. febrúar voru greidd 20.961 atkvæði. Lagið Óstöðvandi hafnaði í efsta sæti eftir símakosningu fyrra kvöldsins og Augnablik (Now)  var í efsta sæti seinna kvöldið.

Áhorfið á úrslitakvöldið var með mesta móti og sýna bráðabirgðatölur að um 70% þjóðarinnar fylgdust með keppninni (uppsafnað áhorf) og meðaláhorf á hverja mínútu útsendingarinnar var 56%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert