Kostar 107 milljónir að breyta Hlemmi í mathöll

Borgarráð hefur samþykkt að rúmlega 107 milljónum króna verði varið í að breyta Hlemmi í matarhöll. Tæpar 82 milljónir fara breytingar vegna mathallar, 18 milljónir fara í kostnað vegna djúpgáma en 7,2 milljónum er varið í almennt viðhald á eigninni.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja verkefnið en aðeins ef að húsnæðið á Hlemmi verði áfram nýtt sem biðstöð fyrir strætisvagnafarþega á aksturstíma vagna um daga, kvöld og helgar.

Í ágúst á síðasta ári samþykkti borgarráð að hefja viðræður við Sjávarklasann um starfsemi í húsinu. Hófu starfsmenn Reykjavíkurborgar í samstarfi við Sjávarklasann að teikna upp mathöll og fara yfir þær nauðsynlegu framkvæmdir til þess að hægt væri að koma verkefninu í gangi.  

Helga Gunnarsdóttir arkitekt, dóttir Gunnars Hanssonar arkitekts hússins var ráðin til þess að teikna breytingarnar.

Fiskur, kjöt, grænmeti og ávextir

„Hugmyndin er að búa til mathöll sem er opin daglega og þar sem er bæði hægt að kaupa matvörur og eins neyta veitinga á staðnum. Mathallir bjóða upp á fjölbreytt úrval matar: fiskur, kjöt, grænmeti og ávextir auk tengdrar sérvöru á borð við blóm og kaffi.  Markmið Sjávarklasans er að skapa mathöll sem þjónustar íbúa nágrennisins og þá sem starfa í nágrenni Hlemms og þannig óbeint laða að gesti miðborgarinnar og erlenda ferðamenn sem upplifa vilja matarmenningu Íslands og mannlíf borgarinnar,“ segir í greinagerð skipulagssviðs.

Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að mathöllin á Hlemmi stuðli að fjölbreyttri þjónustu í nærumhverfi sínu, skapi nýjan áhugaverðan áfangastað sem dragi til sín fólk og verði öllum opin. Markmiðið er að búa til stað sem vegna sérhæfðs vöruframboðs, hönnunar, stemningar, veitinga og samsetningar alls þessa; hefur að bera með sér mikla sérstöðu á Íslandi.

Á Hlemmi verða salerni aðgengileg almenningi sem bætir þjónustu við ferðamenn í miðborginni verulega, en skortur á salernisaðstöðu fyrir almenning hefur skapað nokkurn vanda í miðborginni með stórauknum ferðamannastraumi á síðustu misserum.

Húsið einstakt í byggingasögu borgarinnar

Í greinagerðinni segir að uppbygging Hlemms eigi ríkt erindi vegna þeirra menningarverðmæta sem fólgin eru í þessu einstaka húsi. Er það að mörgu leyti einstakt í byggingasögu borgarinnar og minnisvarði um strauma og hugsun í arkitektúr á 8. Áratugnum.

„Með því að endurhanna húsið að innan sem mathöll þar sem verslun fer fram, taka filmur úr gluggum og hleypa birtu um það og opna það aftur að torginu og mannlífinu fyrir utan, er mikilvægri tengingu við upphaflegt hlutverk hússins náð og sterkustu einkennum þess gert hátt undir höfði. Við hönnun mathallar inni á Hlemmi hefur verið lögð rík áhersla á verndun allra helstu höfundareinkenna hússins,“ segir í greinagerðinni.

Framkvæmdakostnaði haldið í lágmarki

Þar segir jafnframt að áhersla hafi verið lögð á að halda framkvæmdakostnaði í lágmarki og er til dæmis haldið í upprunalegt gólfefni frekar en að flota yfir gólfið. Húsið verður í ár 38 ára gamalt og því margt í húsinu komið á tíma gagnvart endurnýjun og hluti kostnaðarins er því mikilvæg endurnýjun hússins óháð starfsemi mathallarinnar.

„Það er þó engu að síður kostnaðarsöm framkvæmd að breyta biðstöð í mathöll sem stenst allar kröfur og reglugerðir. Hér er verið að útbúa aðstöðu fyrir nokkra litla veitingastaði, salerni með aðgengi fyrir almenning og aðstöðu fyrir nokkrar sælkeraverslanir.“

Í greinagerðinni kemur fram að kostnaðurinn rúmist innan fjárfestingaráætlunar ársins 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert