Móðir Hafnarfjarðar rétt klædd

Unnið hefur verið í tvö ár að gerð faldbúnings sem …
Unnið hefur verið í tvö ár að gerð faldbúnings sem samræmist lýsingum í dánarbúi Rannveigar Sívertsen. Búningurinn var afhentur Byggðasafni Hafnarfjarðar í gær og verður framvegis til sýnis í Sívertsenshúsinu. Ljósmynd/Björn Pétursson

„Það er frábær tilfinning að fá að klæða hana í búning sem hæfir stétt hennar og stöðu,“ segir Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og kjólameistari, en hún hafði frumkvæði að því ásamt eiginmanni sínum, Ásmundi Kristjánssyni gullsmið, að hanna og sauma íslenskan faldbúning á gínu Rannveigar Sívertsen sem finna má á Byggðasafni Hafnarfjarðarbæjar í Sívertsenshúsinu. Áður var hún íklædd grænum kjól sem var danskur að uppruna.

„Það truflaði mig alltaf svolítið, þar sem hún hefði átt að klæðast hátísku íslenskum búningi eins og stallsystur hennar á þessum tíma,“ bætir Hildur við, en hún hefur starfað við þjóðbúningagerð, kennslu og rannsóknir í rúm tuttugu ár. Rekur hún ásamt eiginmanni sínum Annríki – þjóðbúningar og skart en þau hafa unnið að gerð búningsins síðustu tvö ár ásamt góðum liðsauka.

Búningurinn var afhentur Hafnarfjarðarbæ í Sívertsenshúsinu í gærkvöldi og því öllum frjálst að kíkja þar við og kynna sér sögu Rannveigar, „móður Hafnarfjarðarbæjar“.

Ekki eitt saumavélarspor

Hjónin Hildur og Ásmundur hófust handa við verkið fyrir rúmum tveimur árum. Leitaði Hildur víða eftir samstarfi og stofnaði svo hópinn Faldafreyjur, sem taldi átta konur víðs vegar að sem voru tilbúnar að gefa tíma sinn til að skapa faldbúning, sæmandi Rannveigu Sívertsen.

Búningurinn er unninn eftir lýsingum á faldbúningi í eigu Rannveigar sem finna mátti í dánarbúi hennar. „Við ákváðum strax í upphafi að vinna búninginn eins og gert var á þessum tíma, í kringum aldamótin 1800. Hann er því alveg handunninn – ekki eitt saumavélarspor,“ segir Hildur, en aðeins voru notuð efni sem til voru á tímabilinu. Verkið tók alls um 6-700 vinnustundir og er búningurinn metinn á um sjö milljónir.

„Hún var verslunarkona og hafði því sérstaklega góðan aðgang að innfluttu efni, eða innfluttu fíneríi eins og ég kalla það,“ segir Hildur létt í bragði, en því hafi skreytingarnar á búningi hennar ekki verið á allra færi á þessum tíma.

Síðasta verkið við gerð búningsins var að búa til höfuðbúnaðinn. „Ég hugsaði mikið um hann og fékk ýmsar hugmyndir,“ segir Hildur, en höfuðbúnaður faldbúningsins hafi þróast í samræmi við tískustrauma yfir 400 ára tímabil. Ekki fannst skýr lýsing á höfuðbúnaði Rannveigar en Hildur er afar ánægð með afraksturinn.

Mikil umsvif í Hafnarfirði

Saga Rannveigar Sívertsen er um margt merkileg. Hún var upphaflega gift Jóni Halldórssyni, lögréttumanni í Nesi, en Bjarni Sívertsen, sem síðar varð seinni maður hennar, hóf störf hjá þeim sem vinnumaður. Eftir andlát Jóns rak Bjarni bú þeirra en þau giftust skömmu síðar. Um nítján ára aldursmunur var þá á þeim hjónum.

Bjarni söðlaði um og gerðist kaupmaður eftir að einokunarverslun Dana létti hér á landi. Umsvif þeirra hjóna jukust jafnt og þétt í Hafnarfirði og var hann snemma á nítjándu öld kominn með yfirráð yfir stærstum hluta lands í firðinum. Fljótlega hóf hann einnig þilskipaútgerð frá Hafnarfirði. Hjónin eru oftar en ekki kölluð „móðir“ og „faðir“ Hafnafjarðar. 272 ár eru frá fæðingu Rannveigar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert