Börnin horfðu á ofbeldið

mbl.is/G.Rúnar

Heimilisfaðir var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa barið sambýliskonu sína fyrir framan ung börn hennar á heimili þeirra í desember. Maðurinn játaði brotið en bar við minnisleysi vegna ölvunar.

Gengu í hjónaband eftir árásina

Dómur féll í málinu í síðasta mánuði en málið var dómtekið 19. janúar fyrir héraðsdómi Austurlands. Brotin voru framin 7. desember í fyrra en við þingfestingu málsins í janúar mætti ofbeldismaðurinn í fylgd fórnarlambsins. Upplýstu þau dóminn að þau hefðu nýlega gengið í hjúskap, en hefðu verið í sambúð er hann gekk í skrokk á henni, líkt og fram kemur í rannsóknargögnum lögreglu.

Í ákæru kemur fram að hann hafi ráðist að sambýliskonu sinni, nú eiginkonu, þar sem hún lá á dýnu á gólfinu og síðan slegið hana tvö hnefahögg og eitt högg með flötum lófa, í höfuðið, þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi, með þeim afleiðingum að hún hlaut kúlu á hægra gagnauga, mar á hægri kjálka, bólgu og mar á hægri sköflung, mar og eymsli á hægri úlnlið og bólgu og mar á vinstri vísifingur.

Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu voru dætur fórnarlambsins á barnsaldri staddar í íbúðinni og urðu vitni að árás hans á móður þeirra. Í handtökuskýrslu lögreglu kemur fram að sjáanleg merki um ölvun mannsins hafi verið áberandi er hann var handtekinn á vettvangi. Samkvæmt framburði ofbeldismannsins sjálfs hjá lögreglu neitaði hann því ekki að hafa veist að konu sinni, en bar við minnisleysi sökum ölvunar. Kvaðst hann þó muna eftir að hafa eyðilagt sjónvarp á heimilinu og bar við afbrýðissemi tengdri konunni, án þess að gefa á því nánari skýringar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert