Nauðsynlegt að hafa samráð við heimamenn

Nafngift Holuhrauns var í höndum heimamanna í Skútustaðahreppi.
Nafngift Holuhrauns var í höndum heimamanna í Skútustaðahreppi. mbl.is/Sigurður Bogi

Lagaumhverfi nafngifta þegar ný náttúrufyrirbrigði verða til hefur tekið töluverðum breytingum á síðastliðnum árum og meiri áhersla er nú lögð á samstarf við heimamenn. Þetta segir Hallgrímur J. Ámundason, Stofustjóri Nafnfræðisviðs Árnastofnunar. Mikill áhugi er á nafngiftum nýrra náttúrufyrirbrigða og eru menn fljótir að koma með tillögur að örnefnum þegar eldgos verða.

Hallgrímur fjallar um Eldfjöll og örnefni á málstofu sem haldin er um ný örnefni á hugvísindaþingi Háskóla Íslands á morgun. Hann segir flas ekki til fagnaðar er kemur að nafngiftum og að samstarf við heimamenn sé æskilegt.

„Það voru sett ný lög á alþingi í fyrra um örnefni og þá var þessu ferli svolítið breytt í samræmi við vilja starfshópsins sem sá um nafngjöf Magna og Móða í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Nú er nafngjöfin á könnu sveitarfélaganna þannig að heimamenn eiga að koma ríkulega að málinu.“

Sættu sig ekki við Surtseyjarnafnið

Þannig hafi það ekki alltaf verið og sé ferlið í kringum nafngift Surtseyjar eftir gosið 1963 dæmi um hvernig illa hafi verið haldið á málum. „Þá var mikið havarí í kringum nafngift Surtseyjar og það var sérstaklega heitt milli Vestmannaeyinga og þeirra sem réðu. Vestmannaeyingar sættu sig alls ekki við Surtseyjarnafnið og héldu fram nafninu Vesturey. Þeir reyndu líka að kæra málið en það náði ekki fram að ganga,“ segir Hallgrímur.

Hann segir nefndina sem fann nöfn á þá Magna og Móða hafa reynt að draga mikinn lærdóm af þessu. „Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi þá fór allt samfélagið á flug við að finna nafn. Það var m.a. haldin nafnasamkeppni á Rás 2 þar sem um 600 manns sendu inn tillögu.“

Hallgrímur segir nöfnin sem bárust í samkeppnina mörg hver endurspegla þjóðfélagsástandið á þessum tíma. „Þetta er í miðju hruni og fólk er svolítið upptekið af því og er að búa til nöfn sem tengjast þeim aðstæðum.“ Mikið hafi til að mynda verið talað um Hrun, sem og  Jóhönnu og Steingrím. Á endanum hafi síðan verið skipuð nefnd sem vann úr 150 tillögum.

 „Menn í þessum starfshópi höfðu það alveg bak við eyrað hversu illa tókst til með ferlið í kringum Surtseyjanafnið þegar ekki var haft samráð við heimamenn.“ Starfshópurinn hafi því gætt þess að hafa ríkulegt samráð við heimafólk og jarðfræðinga. „Sveitastjórnin í Rangárþingi var m.a. fengin til að skipa fulltrúa sem nefndin gæti verið í samskiptum við og sem gætu upplýst nefndina um staðhætti og fleira.“

Sveitastjórnin með umsjón

Er kom að nafngjöf Holuhrauns núna síðast, þá hafi sveitastjórnin í Skútustaðahreppi haft umsjón með málinu og síðan borið það undir örnefnanefnd áður en ráðherra staðfesti nafngiftina. „Þannig að þetta er orðið töluvert fastmótaðra núna og með því að setja þetta til baka til sveitastjórnanna þá er líka verið að láta heimamenn ráða ferðinni á ný.“ Þetta sé í anda örnefna fyrri tíma sem upp komu hjá íbúum í nágrenni hvers staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert