Dæmdur í nálgunarbann fyrir áreiti í garð konu sinnar og stjúpdætra

Hæstiréttur staðfesti úrskurð um nálgunnarbann.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð um nálgunnarbann. Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann í máli manns  vegna hótana hans og áreitis í garð eiginkonu sinna og stjúpdætra. Manninum var gert að sæta brottvísun og nálgunarbanni af heimili kvennanna, en mæðgurnar hafa ítrekað óskað eftir aðstoð lögreglu vegna mannsins.

Sunnudaginn 6. mars sl. hafði  konan samband við lögreglu vegna hótana og áreitis mannsins í garð hennar og dætra hennar og stjúpdætra hans. Er lögregla kom á vettvang tjáði konan henni að maðurinn, sem hún hefur verið gift í um 10 ár, væri búinn að beita hana andlegu og kynferðislegu ofbeldi í mörg ár. Sagði konan manninn vera mjög brenglaðan kynferðislega og að hann liti á það sem hlutverk hennar að þjónusta hann kynferðislega óháð vilja hennar. Hann hefði m.a. nauðgað sér árið 2014 og hún sjái enn eftir að hafa  ekki kært málið.

Hélt heimilinu í heljargreipum

Konan sagði manninn einnig áreita dætur sínar sérstaklega aðra þeirra, sem hann hafi m.a. sent sms-skilaboð þess efnis að ef hún svæfi hjá honum myndi hann láta systur hennar vera. Maðurinn héldi heimilinu í heljargreipum með hátterni sínu og væri þar einráður.

Lögregla ræddi einnig við aðra dóttur konunnar á vettvangi og kvaðst hún hafa þurft að þola kynferðislega áreitni frá manninum lengi.  Segði hann móður hennar  t.a.m. að hann kæmi til með að nota dætur hennar ef hún sinnti honum ekki.  Þá hafi hann hótað því að henda systrunum út af heimilinu af sama tilefni og stundum reynt að sjá þær naktar.

Í dóminum, sem hæstiréttur staðfesti, kemur fram að manninum er bannað að koma innan við 50 metra radíus frá heimili kvennanna, né heldur megi hann veita þeim eftirför, nálgast þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert