Málskotsrétturinn grefur undan ákvæðinu um þjóðaratkvæðagreiðslu

Verði tillaga stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði kjósenda að lögum …
Verði tillaga stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði kjósenda að lögum þá eiga kjósendur val um tvo mjög svipaða farvegi til að krefjast þjóðaratkvæðis. Ómar Óskarsson

Ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði kjósenda hefur lítinn tilgang á meðan að engar breytingar eru gerðar á 26. grein stjórnarskrárinnar sem tekur á málskotsrétti forseta. Þetta kom fram í máli Bjargar Thorarensen prófessors í lögfræði við HÍ á málþingi Lagastofnunar og Lögfræðingafélags Íslands um tillögu stjórnarskrárnefndar, sem haldið var í Lögbergi í dag.

 „Stjórnarskrárnefnd ákvað að leggja ekki til neinar breytingar á heimildum forseta Íslands samkvæmt 26. grein og enn einu sinni veigra stjórnmálamenn sér við því að hrófla við nokkru sem lítur að stöðu forseta Íslands í stjórnarskránni,“ segir Björg. En slíkt sé að sínu mati bæði pólitískt ómögulegt og stjórnskipunarlega óásættanlegt.  

„Við getum ekki annað en velt því fyrir okkur hvernig þetta muni spila saman með þeirri heimild sem þegar er í lögunum  um að forseti geti skotið lögum í þjóðaratkvæði.“

Engin afstaða er tekin til samspils nýja ákvæðisins um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði kjósenda og málskotsréttar forseta í greinargerð með drögum stjórnarskrárnefndar. Þess sé þó reyndar getið að á málskotsrétti forsetans séu engar hindranir, ólíkt því sem eigi við um nýja ákvæðið sem taki m.a. fram að ekki sé hægt að setja fram kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu í þeim málum er snúa að fjárlögum, fjáraukalögum, lögum um skattamálefni og lögum sem sett séu til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.  

Ætti að leysa málskotsréttinn af hólmi

„Ég hefði talið blasa við að þetta nýja ákvæði um þjóðaratkvæði að kröfu kjósenda ætti að leysa af hólmi málskotsrétt forseta.“  Rétt sé að ákvæðin séu mjög áþekk, enda nær útilokað að forseti beiti 26. greininni nema einmitt að frumkvæði þjóðarinnar. „Reynslan sýnir að það hefur einmitt alltaf verið um 15% kjósenda sem hafa krafist þess að lög færu í þjóðaratkvæði,“ segir Björg, en það er sama prósentuhlutfall og þarf til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt nýja ákvæðinu.

Verði tillaga stjórnarkrárnefndar að lögum þá eigi kjósendur val um tvo mjög svipaða farvegi til að krefjast þjóðaratkvæðis. „Sá munur er þó á að leiðin til forsetans er mun greiðari og einfaldari í sniðum. Það eru enginn lög undanþegin, það þarf ekkert form á söfnun undirskriftar og það eru engir þátttökuþröskuldar í kosningunni.“

Grefur undan virkni nýja ákvæðisins

Björg segir það því vera sína skoðun að þeir kjósendur sem hafi heita skoðun á einhverju máli haldi því áfram að leita til forsetans. „Þessi staða mun að mínu vita grafa undan virkni þessa nýja ákvæðis.“ Ómögulegt sé líka að spá fyrir um viðbrögð forseta. „Það má kannski reyna að reikna út hvað Ólafur Ragnar Grímsson myndi gera en það er bara ekki nóg“, segir Björg og bendir á að enn meiri óvissa skapist með nýjum forseta.

„Það er mín niðurstaða að þrátt fyrir að þetta ákvæði verði sett í stjórnarskrá þá geri stjórnskipan ennþá ráð fyrir því að það verði komið undir ákvörðunarvaldi forseta Íslands hvernig réttur kjósenda til þjóðaratkvæðagreiðslu verði háttað. Það er staða sem hefur verið undanfarin ár og mér sýnist fátt vera að breytast í þeim efnum.“

Björg Thorarensen segir tillögur stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslu breyta litlu á …
Björg Thorarensen segir tillögur stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslu breyta litlu á meðan málskotsréttur forseta er óbreyttur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert