Passíusálmarnir lesnir í Saurbæ

Sigurður Skúlason leikari
Sigurður Skúlason leikari

Föstudagurinn langi verður helgaður lestri Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar í kirkjunni, sem kennd er við hann að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Í fréttatilkynningu kemur fram að allir sálmarnir verði lesnir, og hefst lesturinn kl. 13:30 en ráðgert er að honum ljúki um kl. 18:30.

Lesturinn verður í höndum Sigurðar Skúlasonar, leikara og verður þetta í sjötta sinn sem hann les alla sálmana í Hallgrímskirkju í Saurbæ.

Sr. Hallgrímur var sóknarprestur í Saurbæ frá 1651-1669 eða um 18 ára skeið og þar orti hann Passíusálmana, sem árið 1666 voru fyrst gefnir út á bók. Á þessu ári eru því liðin 350 ár síðan þeir voru fyrst prentaðir.

Allir eru hjartanlega velkomnir og getur fólk komið og farið að vild á meðan lestrinum stendur að sögn Kristins Jens Sigurþórssonar sóknarprests í Saurbæ.

350 ár frá útgáfu Passíusálmanna

Passíusálmarnir skipa einstakan sess í íslenskri útgáfusögu því engin bók eftir íslenskan höfund hefur verið gefin út jafnoft, eða verið til á markaði í jafn langan tíma. Passíusálmarnir hafa verið fáanlegir allar götur frá 1666 til þessa dags og teljast útgáfurnar nú tæplega hundrað.   

„Passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru fyrst gefnir út á Hólum í Hjaltadal árið 1666. Þeir voru prentaðir aftan við Píslarsálma Sr. Guðmundar Erlendssonar á Felli í Sléttuhlíð, sem á þeim tíma var talið eitt helsta skáld landsins. Það var biskupinn á Hólum og fjarskyldur frændi Hallgríms, Gísli Þorláksson, sem gaf sálmana út. Aftan við Passíusálmana var prentaður sá sálmur Hallgríms Péturssonar sem flestir þekkja, útfararsálmurinn „Allt eins og blómstrið eina“.

Til er eiginhandarrit Hallgríms að Passíusálmunum og þar er „Allt eins og blómstrið eina“ einnig fyrir aftan, svo líklegt má telja að þannig hafi Hallgrímur gengið frá útgáfunni í upphafi. Í eiginhandarritinu segir að sálmarnir séu skrifaðir niður árið 1659. Hallgrímur ritaði þá upp í heild sinni nokkrum sinnum og vitað er að hann sendi handritið í að minnsta fjóra staði á árunum 1659 til 1661. Gísli biskup á Hólum endurprentaði Passíusálmana tvisvar, fyrst árið 1671 á meðan Hallgrímur var enn á lífi, og aftur árið 1682. Næsta útgafa var gefin út í Skálholti 1690. Alls voru sálmanir gefnir út í fimm útgáfum á 17. öld, sautján sinnum á 18. öld og nítján sinnum á 19. öld. Á 20. öld voru sálmarnir gefnir út alls 44. sinnum. Nýjar útgáfur þeirra bætast við reglulega, eða að meðaltali á tveggja ára fresti.  

Hallgrímur Pétursson fæddist í næsta nágrenni við fyrsta útgáfustað Passíusálmanna, á Gröf á Höfðaströnd í Skagafirði, árið 1614 og ólst þar upp og síðar á Hólum í Hjaltadal þar sem faðir hans var hringjari. Um 1624 heldur hann utan til Glückstadt í Norður-Þýskalandi, sem þá tilheyrði Danmörku, til iðnnáms. Eftir að hann komst í kynni við Brynjólf Sveinsson, síðar Skálholtsbiskup, komst hann til mennta í Kaupmannahöfn og var fenginn til að kenna þeim Íslendingum kristin fræði sem rænt hafði verið af sjóræningjum árið 1627 og hnepptir í þrælahald í Alsír, en höfðu verið keyptir aftur úr prísundinni. Þar kynntist hann Guðríði Símonardóttur sem hann svo kvæntist og saman fluttu þau til Íslands 1637 þar sem Hallgrímur stundaði í fyrstu ýmis störf en varð seinna prestur í Hvalnesþingum og síðar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann lést á Ferstiklu, næsta bæ við Saurbæ,“ samkvæmt upplýsingum frá Crymogeu sem gaf út Passíusálmana í útgáfu Marðar Árnasonar í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert