Klæddist öllum fötunum í fluginu

Matt Botten er annað hvort þrjóskur eða sparsamur. Kannski hvort …
Matt Botten er annað hvort þrjóskur eða sparsamur. Kannski hvort tveggja. Skjáskot/Daily Mail

Breskur ferðamaður, sem ofbauð gjaldið sem hann þurfti að greiða fyrir handfarangur í flugi EasyJet á leiðinni frá Gatwick flugvelli til Keflavíkur á dögunum, dó ekki ráðalaus þegar honum var gert að greiða 45 sterlingspund fyrir að taka handfarangurstösku með sér í flugið. Hann einfaldlega klæddi sig í öll fötin sem voru í töskunni.

Frá þessu er greint á vef Daily Mail en þar segir að hinn 32 ára gamli Matt Botten frá Cardiff hafi ákveðið að tæma ferðatösku sína og klæða sig í öll fötin sem voru í töskunni frekar en að greiða upphæðina sem honum var gert að greiða.

Þegar hann hafði klætt sig í nokkra stuttermaboli, peysur, buxur, hanska og stungið auka skópari í vasana gekk hann áleiðis í vopnaleitina ásamt kærustu sinni. Vegna klæðaburðar hans þurfti hann að gangast undir strangari vopnaleit á flugvellinum að því er fram kemur í fréttinni.

Botten státaði sig af uppátækinu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði: „Við erum á leiðinni til Íslands elskan! Og hvernig á að gera það á fjárhagslega hagkvæman máta, án þess að þurfa að punga út blóðugum 45 pundum fyrir handfarangur? Einfaldlega með því að klæðast öllu sem ég á,“ skrifaði hann.

Ekki kemur fram í fréttinni hvernig Botten hafi liðið í fluginu en á síðasti ári greindi MailOnline frá því að liðið hafi yfir tónlistarmann sem klæddist öllum fötunum til þess að komast hjá því að greiða fyrir handfarangur um borð í flugvél EasyJet. 

Frétt Daily Mail um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert