Samrýmist ekki trúnaðarstörfum

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég veit ekki til þess að neinn trúnaðarmaður í Samfylkingunni sé í þeim aðstæðum. En það liggur í augum uppi að slíkt er ekki samrýmanlegt trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is spurður að því hvort hann viti til þess að áhrifamaður innan flokksins tengist félögum í skattaskjólum. Samfylkingin hafi tekið skýra afstöðu gegn skattaskjólum eins og systurflokkar hennar erlendis.

Fjallað var um það í kvöld í fréttum Ríkisútvarpsins að auk þriggja ráðherra tengdust fleira áhrifafólk í íslenskum stjórnmálum félögum í skattaskjólum. Fréttavefurinn Eyjan.is hefur fullyrt að þar á meðal sé áhrifamaður í Samfylkingunni. Eins og mbl.is hefur fjallað um eru ráðherrarnir þrír auk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra.

Félagið sem Sigmundur tengist er í eigu eiginkonu hans og hefur verið skráð á Bresku jómfrúareyjum en bæði Bjarni og Ólöf hafa lýst því yfir að félögin sem þau tengdust hafi verið aflögð fyrir nokkrum árum síðan og þeim hafi ekki verið kunnugt um að þau væru skráð í skattaskjólum. Bjarni upplýsti að allir skattar hefðu verið greiddir hér á landi af því félagi sem hann tengdist og Ólöf greindi frá því að hún og eiginmaður hennar hefðu aldrei átt neinar eignir í félögum á aflandsvæðum.

„Ég held að það sé mikilvægt að sjá til fulls hvernig í þessu máli liggur. Það eru ennþá að berast nýjar upplýsingar í kjölfar fréttanna af félagi eiginkonu forsætisráðherra fyrir tveimur vikum síðan,“ segir Árni Páll. Fólk sé eðlilega reitt og vonsvikið vegna frétta af þessum málum. Mikilvægt sé að ráðherrarnir geri grein fyrir sínum málum þegar þing kemur saman eftir helgi.

Stjórnarandstaðan hefur boðað mögulegt vantraust á forsætisráðherra vegna málsins en forystumenn stjórnarandsstöðuflokkanna funda síðdegis á morgun um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert