Stífluð miðborg, aldrei séð annað eins

Mikill fjöldi fólks er á Austurvelli.
Mikill fjöldi fólks er á Austurvelli. mbl.is/Styrmir Kári

Allt að 8 þúsund manns eru þessa stundina á Austurvelli á mótmælum eftir umfjöllun um Panama-skjölin í gær og tengsl ráðamanna við skattaskjól. Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglumenn á vakt hafi ekki áður séð annað eins. „Það er gífurlegur fjöldi,“ segir Arnar.

Hann segir mannskap lögreglunnar sem fylgist með myndavélum frá mótmælunum og miðbænum ekki kannast við álíka mótmæli. Segir hann að þó talningarnar séu ekki alltaf vísindalegar séu skilyrði þannig núna að bjart sé og auðveldara að áætla fjöldann.

Mikill mannfjöldi er á Austurvelli og lögreglan segist gera ráð …
Mikill mannfjöldi er á Austurvelli og lögreglan segist gera ráð fyrir að um 8 þúsund manns séu á staðnum. mbl.is/Kristján

Þá segir hann að mikið af fólki komist ekki inn á Austurvöll. Þannig sé fullt á Kirkjustræti og á nokkrum leiðum frá Austurvelli. „Sæbrautin er líka stífluð. Stífluð miðborgin,“ segir Arnar.

Einhverjir mótmælendur hafa grýtt Alþingishúsið með eggjum og bönunum og segir Arnar að greinilega sé hiti í fólki. Enginn hafi þó verið handtekinn síðan mótmælin hófust og í heild hafi þau farið vel fram.

Gert var ráð fyrir að mótmælunum lyki klukkan sjö í kvöld, en Arnar segir að nú sé klukkan að verða sex og ekki sé farið að sjást fararsnið á fólki. Segir hann óvíst hversu lengi mótmælin muni því standa yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert