„Þessir snúningar eru hvergi nærri nóg“

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, fundaði ásamt öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar með Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, í dag. Hann segir að þrátt fyrir afsögn Sigmundar ýti stjórnarandstaðan á að vantraustsyfirlýsing verði tekin fyrir á þinginu. Hann segir afsögn Sigmundar ekki hafa verið nógu stórt skref og að ríkisstjórnin, jafnvel undir nýjum forsætisráðherra, njóti ekki trausts.

Helgi segir að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi ítrekað kröfu sína um að þing kæmi saman sem fyrst. Hann segir að niðurstaða hafi verið um þingfund á morgun þar sem hægt væri að spyrja Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og Sigurð Inga Jóhannsson, varaformann Framsóknarflokksins, út í stöðu mála. „Getum þá knúið þá svara um stöðuna sem er og þá miklu óvissu sem er uppi í landinu,“ sagði Helgi.

Aðspurður um afstöðu Samfylkingarinnar til stöðu ríkisstjórnarinnar og Bjarna sagði Helgi að vantraustið gilti einnig um mögulega nýja ríkisstjórn. „Við teljum að þessi nýja ríkisstjórn sem hefur verið boðuð undir forsæti varaformanns Framsóknarflokksins meðan að formaður Framsóknarflokksins á áfram að sitja að hún njóti ekki trausts í landinu frekar og munum jafnframt flytja vantraust á hana“ sagði Helgi og bætti við: „Þessir snúningar eru hvergi nærri nóg til að endurvinna traust á ríkisstjórnina og stjórnmálin í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert