Láti Wallander rannsaka „afsögnina“

Tilkynningar um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í gær stönguðust á …
Tilkynningar um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í gær stönguðust á og hafa valdið nokkrum misskilningi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvissan um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra vekur athygli út fyrir landsteinana. Financial Times fjallar um tilkynningu sem send var erlendum blaðamönnum um að hann hafi ekki sagt af sér og segir að kalla þurfi á rannsóknarlögreglumanninn Wallander.

„Forsætisráðherra Íslands sagði af sér á þriðjudag...eða gerði hann það?“ er spurt í dálki á vefsíðu Financial Times í morgun.

Þar er rakið hvernig Sigmundur Davíð hafi, að því er virtist, orðið fyrsti maðurinn til að segja af sér í kjölfar leka Panamaskjalanna, eftir að tilkynnt var að hann myndi stíga til hliðar. Talsmaður ríkisstjórnarinnar hafi hins vegar síðar neitað því að hann hefði sagt af sér og að hann hafi aðeins beðið Sigurð Inga Jóhannsson um að taka við sem forsætisráðherra í „ótiltekinn tíma“.

„Einhver fái Wallander rannsóknarlögreglumann og Lund lögreglumann í málið,“ segir Financial Times og vísar til þekktra persóna úr norrænu glæpaþáttunum Wallander og Glæpnum.

Í frétt á vef blaðsins segir einnig að tilkynningin, sem Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sendi á erlenda blaðamenn hafi lagt grundvöllinn að öðrum degi pólitísks drama á Íslandi.

Norska ríkisútvarpið NRK fjallaði einnig um misvísandi tilkynningar frá ríkisstjórninni og Framsóknarflokknum um afsögn Sigmundar Davíðs. Hafði það eftir íslenska markaðsfræðingnum Hirti Smárasyni að „enginn viti né skilji“ hvað sé að gerast á Íslandi þessa stundina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert