Loksins á Sigmundur heimsmet

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

„Nú á hann loksins heimsmet með þrjá ráðherra í sinni ríkisstjórn sem eru á Panamaskjölunum, nokkra borgarfulltrúa í viðbót og 600 landsmenn sína í viðbót,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG á Alþingi í dag. Sagði hann uppljóstranir um aflandsfélög í boði hugmyndafræði stjórnarflokkanna.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi gagnrýndi þingmaðurinn Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, fyrir að hafa í svarið við fyrri fyrirspurn gert að því skóna að tækifæri til landkynningar fælist í athygli erlendra fjölmiðla á stjórnmálaástandinu á Íslandi í kjölfar birtingar Panamaskjalanna.

Steingrímur sagði veruleikann þann að nú væru loksins komin fram heimsmetin sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, hafi sífellt stært sig af og vísaði hann til íslenskra ráðamanna sem væru bendlaðir við aflandsfélög.

„Þetta er allt saman í boði sömu flokka. Þetta er á grundvelli hugmyndafræði og pólitíkur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, allt saman. Það er fortíðin frá nýfrjálshyggjutímunum sem er að elta þessa flokka uppi núna en því miður er það þjóðinni sem blæðir,“ sagði Steingrímur og lá hátt rómur.

Kom Bjarni þá í pontu til að svara fyrirspurn Steingríms.

„Ég tók ekki eftir því að til mín væri beint neinum spurningum og hér var horft á tóman stól fráfarandi forsætisráðherra þannig að ég hef ekkert um þessa ræðu að segja,“ sagði fjármálaráðherra og settist aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert