Engin merki um óróa í Bárðarbungu

Flogið yfir Bárðarbungu.
Flogið yfir Bárðarbungu. mbl.is/Árni Sæberg

Engin jarðskjálftavirkni hefur mælst við Bárðarbungu síðan klukkan 1:30 í nótt og engin merki eru um óróa á svæðinu. Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Um 00:10 í nótt varð jarðskjálfti í Bárðarbungu sem mældist 4,2 stig. Varð hann á norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar en þetta var stærsti skjálfti á svæðinu síðan að gosi þar lauk í febrúar 2015. Í kjölfarið fylgdu 15 eftirskjálftar. „Það eru engin merki um kvikuhreyfingar, eldsvirkni eða óróa,“ segir Einar og bætir við að talið sé líklegt að skjálftarnir tengist hreyfingum á hringsprungu öskjunnar.

Að sögn Einars fór að hægja á virkninni um klukkan 1:30 og er búið að vera rólegt síðan þá. „En við fylgjum mjög grannt með þessa stundina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert