Þakka Sigmundi Davíð fyrir unnin störf

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna vill þakka Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir ósérhlífin störf í þágu þjóðarinnar og fyrir að taka þá virðingarverðu ákvörðun að stíga til hliðar.

Kemur þetta fram í ályktun stjórnar Sambands ungra framsóknarmanna (SUF).

„Stjórn SUF bindur vonir við að ný ríkistjórn muni gera það að sínu verki að vinna að bættum siðum og siðferði innan veggja Alþingishússins svo hægt verði siðvæða stjórnmálin og gera upp þá alvarlegu stöðu sem myndast hefur í íslensku samfélagi undanfarið hvað varðar aflandsfélög og skattaskjól.

Það er ljóst að sú hegðun sem hefur viðgengist inni á Alþingi það sem af er kjörtímabilinu er ófagmannleg og skorar stjórn SUF á þingmenn að líta í eigin barm og standa saman að því að bæta brotna ímynd þessarar grunnstoðar íslensk stjórnmálakerfis,“ segir í áðurnefndri ályktun.

Þá vonast stjórn SUF til þess að þverpólitísk sátt geti komist á um að ljúka mikilvægustu verkefnum ríkisstjórnarinnar.

Ennfremur óskar stjórn SUF þeim ráðherrum sem tóku við lyklavöldum í ráðuneytum sínum í gær velfarnaðar í starfi og fagnar því að nú sé meirihluti ráðherra Framsóknarflokksins konur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert