Hvetja flokkana til að ná samkomulagi

Að mati FA er mikilvægt að ná víðtækri samstöðu um …
Að mati FA er mikilvægt að ná víðtækri samstöðu um ýmis mál sem snerta hagsmuni atvinnulífsins mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórn Félags atvinnurekenda hefur sent frá sér ályktun þar sem flokkarnir á Alþingi eru hvattir til að ná góðu samkomulagi um þingstörfin fram til boðaðra kosninga í haust og ná víðtækri samstöðu um ýmis mál sem snerta hagsmuni atvinnulífsins og brýnt er að verði að lögum.

Þar ber einna hæst boðuð frumvörp sem samþykkja þarf til að greiða fyrir aflandskrónuútboði og losun gjaldeyrishaftanna, jafnframt lækkun tryggingagjalds á fyrirtæki og ný lög um opinber innkaup og ársreikninga, svo dæmi séu nefnd.

Stjórn FA leggur jafnframt áherslu á að þingið setji í forgang að afgreiða þau mál sem snúa að innleiðingu EES-reglna. „Nauðsynlegt er að rétta af innleiðingarhallann svokallaða; Ísland stendur sig enn alltof illa í innleiðingu EES-reglna og afleiðingarnar eru dómsmál fyrir EFTA-dómstólnum sem hefði mátt afstýra. Einsleitt regluverk á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er mikið hagsmunamál fyrir íslensk fyrirtæki,“ segir í ályktuninni.

Þá hvetur stjórnin stjórnmálaflokkana til að skuldbinda sig til að stefna að því að í fjárlögum ársins 2017 verði hvergi slakað á aðhaldi í ríkisfjármálum.

„Aðhaldssöm ríkisfjármálastefna er nauðsynleg til að styðja við aðhald og virkni peningamálastefnunnar nú þegar spenna er í þjóðarbúskapnum.“

Ályktunina má sjá hér og lista FA yfir mikilvæg þingmál fyrir atvinnulífið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert