Aukið vændi með fjölda ferðamanna

Vændissala hefur mikið færst af götunni og yfir á samfélagsmiðla …
Vændissala hefur mikið færst af götunni og yfir á samfélagsmiðla og á vefsíður. AFP

Vændismarkaðurinn á Íslandi hefur stækkað undanfarið og er það meðal annars tengt við aukinn ferðamannastraum. „Allt í einu er Reykjavík orðin heitur punktur t.d fyrir steggjapartí og þá eykst eftirspurn eftir vændiskonum,“ segir Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Vændissala fer að mestu leyti fram í gegnum vefsíður og samfélagsmiðla og þá er húsnæði sem tekið er á leigu í gegnum Airbnb notað undir vændi til skamms tíma í einu. „Þetta eru yfirleitt erlendir einstaklingar sem koma hingað í stuttan tíma. Þeir setja auglýsingu á einhverja vefsíðu eða Facebook. Vændiskaupendur vita hvert á að leita og þekkja síðurnar. Þar eru auglýsingarnar oft staðlaðar eftir borgum og er Reykjavík þar á meðal,“ segir Snorri. En inn á síðunum finnur vændiskaupandinn borgina sem hann er staddur í og sér þá hvað er í boði á þeim tíma sem honum hentar. Snorri segir smáauglýsingar í blöðum um erótískt nudd horfnar en í staðinn séu vændisauglýsingar alveg komnar inn á samfélagsmiðlana.

Sænska leiðin gagnast vel

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sett aukinn kraft í vændis- og mansalsmál eftir skipulagsbreytingar sem voru nýverið gerðar á rannsóknardeildinni.

Ísland tók upp „Sænsku leiðina“ svokölluðu árið 2009 en þá er sala á vændi lögleg en kaup og milliganga um vændissölu ólögleg.

Reglulega heyrast efasemdaraddir um þessa leið og í frétt sem birtist í vikunni á AFP segir að vændi á Norðurlöndunum lifi góðu lífi þó það hafi farið af götunum með tilkomu „Sænsku leiðarinnar“, það hafi í staðinn færst yfir á netið og í snjallsímana. Tilefni skrifanna er að í síðustu viku var samþykkt á franska þinginu að setja lög sem refsa vændiskaupendum að fyrirmynd „Sænsku leiðarinnar“. Haft er eftir talsmanni samtaka fólks í kynlífsiðnaði í Osló að lögin hafi haft neikvæð áhrif á vændiskonurnar sem þurfi nú að stunda viðskipti sín í felum til að verja viðskiptavini sína, það setji þær oft í mikla hættu en með því eru þær einangraðri og auðveldara að beita þær ofbeldi.

Snorri segir „Sænsku leiðina“ gagnast vel, hún hafi líklega ekki breytt eðli vændis – það hafi tæknin gert, en með henni sé hægt að veita þeim sem gera sig út í vændi ákveðna vernd. „Við beinum sjónum okkar að vændismálum vegna þess að lögbrot er að eiga sér stað. Ef við hefðum ekki farið þessa leið veltir maður fyrir sér hvort lögreglan væri að skoða þessi mál yfirhöfuð.“

Hann segir að öll vændismál séu skoðuð með mansal í huga og staðreyndin sé að flestir sem selji sig í vændi séu undir hælnum á öðrum aðila. Grunur leikur á að þær vændiskonur sem koma hingað í stuttan tíma og dvelja í leiguhúsnæði séu gerðar út og sendar á milli landa. „Verðið á markaðnum í dag er á bilinu 35 til 50 þúsund krónur skiptið og einstaklingurinn er að gera sig út allt frá 5 til 8 sinnum á dag. Þetta eru miklir fjármunir og peningarnir eru sendir úr landi t.d. með Western Union. En hver er að græða?“

Breyttar áherslur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti nýverið á laggirnar hóp sem á að skoða mansal og vændi hér á landi. „Þessi mál hafa ekki verið ofarlega í forgangi hjá lögreglunni en með breyttum áherslum viljum við auka eftirlit með þessum málum og skoða hvaða einstaklingar það eru sem eru gerðir út í vændi og hver raunveruleg staða þeirra er,“ segir Snorri.

Ávinningur laganna ljós

„Hvorki okkur né nokkrum öðrum hefur dottið í hug að það að minnka vændi væri það einfalt að ekki þyrfti annað til en að banna kaupin,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, um árangurinn af „Sænsku leiðinni“. Guðrún segir að alltaf sé verið að reyna að grafa undan lögunum enda séu gífurlegir hagsmunir í húfi. Umræðunni sé oft stýrt af þeim sem hagnist af vændi og mansali. Ávinningur laganna sé ljós og að þau endurspegli hugmyndafræðilega þá þekkingu sem til er.

„Ég leyfi mér að halda fram að klámiðnaðurinn hér á landi sé ekki svipur hjá sjón frá því sem hann var um aldamótin. Það hefur orðið mikil vitundarvakning og m.a. öllum klámbúllunum verið lokað. Vændi getur aldrei orðið neðanjarðarstarfsemi, það eru miklir peningar í húfi og kúnnarnir þurfa að geta fundið vændið,“ segir Guðrún.

Um þrjátíu konur á ári leita til Stígamóta vegna þess að þær eru í vændi, þær eru flestar íslenskar og hafa margar selt sig í gegnum netsíður.

Eftirspurn eftir vændiskonum hefur aukist t.d. vegna steggjapartía.
Eftirspurn eftir vændiskonum hefur aukist t.d. vegna steggjapartía.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert