Íslendingur sagður í Ríki íslams

Þessi mynd birtist í áróðursmyndbandi Ríki íslams.
Þessi mynd birtist í áróðursmyndbandi Ríki íslams. Skjáskot

Einn Íslendingur er meðal þeirra sem gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams á árunum 2013 til 2014. Þetta kemur fram í skjölum um hryðjuverkasamtökin sem lekið var til fréttastofanna NBC og Sky News. Skjölin greina frá upplýsingum um 4.000 liðsmenn samtakanna frá 71 landi.

Í desember 2014 var sagt frá því að Sýr­lend­ing­ur sem starfaði áður með Ríki íslams hafi haldið því fram að  ís­lensk­ur kvik­mynda­gerðarmaður væri meðal liðsmanna hryðju­verka­sam­tak­anna og taki meðal ann­ars mynd­skeið fyr­ir sam­tök­in. Hélt hann því fram að Íslendingurinn tæki fag­mann­leg mynd­skeið sem notuð eru til þess að vekja at­hygli á starfi sam­tak­anna og fá nýliða til starfa.

Ekki er vitað hvort að um sama mann sé að ræða.

Í úttekt NBC á skjölunum má finna margt áhugavert um þá sem ákváðu að ganga til liðs við samatökin. Meðalaldurinn var 26-27 ár en í hópnum mátti einnig finna unglinga og menn á sextugsaldri. Um 40 voru 15 ára eða yngri.

Flestir þeirra komu frá Sádi Arabíu eða 797. Þá komu 640 frá Túnis og 260 frá Marokkó. Í grein NBC segir að erlendu liðsmennirnir hafi þó komið frá öllum heimshornum, 167 frá Kína, einn frá Íslandi, 13 frá Ástralíu og tveir frá Trinidad og Tobago.

Um 10% komu frá vestrænum ríkjum, þar af 57 frá Bretlandi og 14 frá Bandaríkjunum. Flestir þeirra sem komu frá vestrænum ríkjum voru Frakkar eða 128 talsins og 80 voru Þjóðverjar.

Þá voru 60% liðsmannanna einhleypir en 30% giftir og áttu þeir 2.000 börn í heildina.

Umfjöllun NBC í heild sinni má sjá hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert