Viðstöðulaust unnið að umbótum á þjónustu LSH

Framtíðarsýn LSH er háskólasjúkrahús í fremstu röð sagði Páll Matthíasson …
Framtíðarsýn LSH er háskólasjúkrahús í fremstu röð sagði Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans á ársfundi spítalans. mbl.is/Eggert

Áfram verður þungur róður á legudeildunum og sjúklingar munu áfram ílengjast á bráðamóttökunni úr hófi fram, þetta kom fram í máli Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala Háskólasjúkrahúss, á ársfundi Landspítalans sem fram fór á Nordica Hótel nú síðdegis.

„Biðlistarnir munu ekki styttast eins hratt og við vildum og viðhald húsnæðisins mun heldur ekki halda í við væntingar. Það er óþarfi að draga upp einhverja glansmynd af ástandinu jafnvel þó við séum í sparifötunum í dag. Þetta er eins og það er og það er mikilvægt að við séum alltaf vakandi fyrir því hvar við þurfum að bæta okkur,“ sagði Páll og bætti við að viðstöðulaust sé unnið að umbótum á þjónustunni um allan spítala.

Nýlega hafi verið kynnt stefna LSH þar sem sjúklingurinn er hafður í öndvegi. „Sumum kann að þykja það svo sjálfsagt að það sé jafnvel óþarfi að nefna það. En svo er ekki. Það er mjög afdráttarlaus yfirlýsing af hálfu þeirra hundruða starfsmanna sem að stefnumótun spítalans komu í vetur að sjúklingurinn er í öndvegi.“

Ekki sé hægt að byggja upp kerfi sem reiði sig á útsjónarsama og sniðuga einstaklinga sem láta sér alltaf detta í hug bestu lausnirnar. „Lausnirnar eiga vera öllum ljósar, hvort sem þeir eru snjallir eða ekki. Við eigum að byggja upp kerfi þar sem við tölum saman, boðleiðirnar eru skýrar, ábyrgðin klár og allir vinna að sama markmiði,“ sagði Páll og rifjaði upp sögu af sjúklingi í alvarlegu geðrofi sem kerfið brást er hann var ungur deildarlæknir á geðdeild.

Uppbygging spítalans öryggismál

Framtíðarsýn LSH sé metnaðarfull; háskólasjúkrahús í fremstu röð sem studd er af gildunum spítalans um umhyggju, fagmennsku, öryggi og framþróun.

„Allt þetta verður að hvíla á traustum undirstöðum. Ein mikilvægasta undirstaða stefnu Landspítala og starfseminnar allrar er húsnæði og búnaður,“ sagði Páll og nefndi deilur um húsnæðismál LSH.  „Uppbygging Landspítala við Hringbraut er öryggismál sem ekki má lengur vera fórnarlamb pólitískrar óvissu og ístöðuleysis.“  

Framkvæmdir við langþráð sjúkrahótel séu hafnar og fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans hafin og þá sé framundan hönnun rannsóknarhúss.

„Við erum ekki að byggja „nýjan“ Landspítala. Við erum að byggja sjúkrahótel, meðferðarkjarna og rannsóknarhús og svo byggir Háskóli Íslands hús heilbrigðisvísinda. Allt er þetta eðlileg endurnýjun á úr sér gengnum húsakosti og er í raun umfangsmikið viðhaldsverkefni, samhliða öðrum brýnum viðhaldsverkefnum sem ráðast þarf í.“

Fjárveitingar til fjárfestinga í tækjabúnaði LSH af hálfu ríkisins hafi farið vaxandi frá árinu 2013 og það hafi skilað miklum umbótum í starfseminni. Kostnaðarsamar fjárfestingar séu engu að síður oft fjármagnaðar í samvinnu við einkaaðila, en stefnt sé að því að ríkisframlagið standi undir nauðsynlegum búnaði. Eigi sá viðsnúningur  sem orðið hafi í tækjamálum LSH að halda áfram, þá verði að tryggja áfram að 2-3% af veltu spítalans geti runnið til tækjakaupa. „Markmiðið er að allt viðbótarfjármagn geti runnið í spennandi og skemmtilegar nýjungar - svona „nice to have“ fremur en “need to have“,“ sagði Páll.  

Skortur á starfsfólki ein stærsta ógnin

Skortur á menntuðu heilbrigðisstarfsfólki sé þá ein stærsta ógnin við Landspítalann og slíkt sé alvarlegt. „Við sjáum fækkun nýliða í hjúkrunarfræði sem er hryggjarstykkið í starfi hvers spítala. Sama gildir um aðrar mikilvægar stéttir svo sem lífeindafræðinga og geislafræðinga - svo eitthvað sé nefnt. Þetta gerist á sama tíma og við vitum að þjóðin eldist hratt og ljóst að þörfin fyrir þjónustu þessara stétta verður gríðarleg. Við þurfum að gera allt til þess að gera störfin á Landspítala og í heilbrigðisþjónustunni almennt eftirsóknarverð og spennandi,“ sagði Páll.

Efla þurfi nám í heilbrigðisvísindum og rannsóknir í heilbrigðisvísindum og verja til þess mun meira fé en nú sé gert. „Við verðum að gera námið spennandi, umhverfið áhugavert og aðbúnaðinn framúrskarandi. Auðvitað skiptir starfsfólk meiru en steinsteypa og huggulegasta húsnæði eða annar aðbúnaður kemur ekki í staðinn fyrir það.“

Eftirsóknarvert starfsfólk sem eigi auðvelt með að fá vinnu erlendis þurfi hins vegar ekki að gera sér lélegar aðstæður og aðbúnað að góðu. „Það er raunverulega eftirsótt um allan heim, ólíkt þeim sem töldu sig ómissandi á árunum fyrir hrun. Starfsfólkið okkar menntar sig um heim allan og við bestu aðstæður. Það er vant að gera sitt allra besta við góðar aðstæður og aðbúnað. Þess vegna skiptir húsnæði og annar aðbúnaður máli. Fáir gera athugasemdir við mikilvægi hljómburðar og vandaðs flygils þegar Víkingur Heiðar leikur píanókonsert í Eldborgarsal Hörpu. Auðvitað gæti hann spilað sama lag á skemmtara heima í stofu. Eða á flygilinn í Iðnó, hann er fínn og sumum finnst hann bara fullgóður. En ekki mér og þér á ekki heldur að finnast það. Við byggðum Hörpu upp úr rústum hrunsins og getum verið stolt af henni og starfseminni þar. Við bæði getum og eigum að byggja upp aðbúnað sjúklinga og starfsfólks af sama myndarbrag og framsýni. Annað er fráleitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert