SÍNE setur fyrirvara á greiningu LÍN

Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) setur mikla fyrirvara á greininu …
Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) setur mikla fyrirvara á greininu sem Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) beitti við vinnu á nýjum úthlutunarreglum sjóðsins. mbl.is/Árni Sæberg

Samband íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, setur verulega fyrirvara á þá greiningu sem Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN, beitti til að vinna nýjar úthlutunarreglur fyrir sjóðinn. Samkvæmt reglum sjóðsins fyrir skólaárið 2016-2017 lækkar framfærslugrunnur námsmanna erlendis um 10-20%, en lækkunin er mismunandi eftir borgum.

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að þegar verið hafi verið að vinna úthlutunarreglur sjóðsins vegna skólaársins 2013-2014 á námslánum til nema í útlöndum hafi komið í ljós að framfærslugrunnurinn erlendis gæfi ekki rétta mynd af framfærslunni og því hafi verið ákveðið að hann skyldi endurskoðaður.

Greiningin gefur ekki rétta mynd

LÍN fékk ráðgjafarfyrirtækið Analytica til að vinna skýrslu um framfærslu sem framfærslugrunnur LÍN fyrir námsmenn erlendis fyrir námsárið 2015-2016 byggi á. Athugunin byggir á greiningu á áætlunum 145 háskóla, samtaka námsmanna og ríkisstofnana í þeim löndum sem framfærslugrunnur 2014-2015 nær til.

SÍNE setur verulega fyrirvara við þessa greiningu og þá sérstaklega þær forsendur sem liggja henni að baki. Slík greining þarf að vera ítarleg og byggð á traustum forsendum til þess að hún gefi rétta mynd af raunverulegri framfærslu einstaklings, til að mynda einstaklings í námi erlendis,“ segir Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SÍNE, í samtali við mbl.is.

Skýrsla Analytica sem lögð var til grundvallar útreiknings nýrrar framfærslu nemenda erlendis var fyrst og fremst byggð á tveimur forsendum, framfærslutölum á vefsíðum háskóla erlendis og vefsíðunni www.numbeo.com,“ segir Hjördís.

Í skýrslu Analytica vegna tillögu um framfærslugrunn segir meðal annars:

„Niðurstaða [reikni]líkansins er á þá leið að framfærsluáætlanir skólanna eru marktækt viðmið en líkanið útskýrir um 95% af breytileika í áætlunum háskóla.” Í sömu skýrslu segir einnig að  að það sé „mat Analytica að traustasti grunnurinn sem unnt sé að byggja á séu áætlanir einstakra skóla um framfærsluútgjöld.”

Háskólar hafa hag af því að hafa lágar framfærslutölur

SÍNE gerir alvarlega athugasemdir við áðurnefndar forsendur. „Það er ótækt að miða við framfærslutölur frá háskólum víðs vegar úr heiminum og þá hvað kemur fram á heimasíðum þeirra hverju sinni um framfærslu nemenda þar í landi. Ekki er ljóst af skýrslunni hvort að skólarnir hafi verið spurðir eitthvað frekar út í útreikning þeirra talna og hvort eitthvað annað liggi þar að baki en hrein ágiskun. Þá gefur það augaleið að háskólar út í heimi hafa hag af því að hafa framfærslutölur sem minnstar til að draga að nemendur,“ segir Hjördís.

Þá er ágæti síðunnar Numbeo einnig dregin í efa af SÍNE. „Numbeo.com er gagnagrunnur sem einstaklingar sjálfir geta skrifað þær hugmyndir sem þeir hafa um framfærslu í viðkomandi landi og í sumum tilfellum með of fáum þátttakendum til að geta verið marktækt eða áreiðanleg gögn til viðmiðunar. Áreiðanleika þeirra upplýsingar er ekki sérstaklega kannaðar af forsvarsmönnum síðunnar. Að mati SÍNE er hægt að leggja þetta til jafns við að styðjast við Wikipedia í greiningu á framfærslu sem er ekki áreiðanleg heimild,“ segir Hjördís.

Að hennar mati hefði verið hægt að fara í ítarlegri greiningu á framfærsluþörf nemenda erlendis. „Til að mynda í gegnum Eurostat, sem lítið var til í skýrslu Analytica, eða annara viðurkenndra stofnana víðs vegar um heim.“

Hrafnhildur segir einnig í Morgunblaðinu í dag að lánasjóðurinn eigi ekki að lána umfram þörf. Hjördís segir að staðan sé alls ekki svo. „Við heyrum reglulega sögur og frásagnir frá námsmönnum erlendis á skrifstofu SÍNE. Af þeim er ljóst að margir námsmenn eru að lenda í vandræðum vegna þessa niðurskurðar, til að mynda má vísa á læknanema í Slóvakíu og Ungverjalandi þar sem fólk gæti lent í því að flosna upp frá sínu námi vegna skorts á framfærslu“.

Hámarkseiningafjöldi lækkar

Framfærslugrunnur námsmanna erlendis er ekki það eina sem lækkar í nýjum úthlutunarreglum sjóðsins en hámarkseiningarfjöldi sem hægt verður að fá lán fyrir verða 480 ECTS-einingar í stað 540 ECTS-eininga.

„SÍNE gagnrýnir harðlega að ekki nóg með að verið sé að skera niður framfærslu námsmanna erlendis, þá er dregið úr rétti þeirra enn fremur með því að skerða rétt þeirra til námslána um eitt ár, eða 60 ECTS einingar,  en í fyrra var einmitt einnig skorið niður um sama fjölda eininga. Þannig að námsmenn áttu rétt á 600 ECTS einingum fyrir nokkrum árum síðan en nú eru þær einungis 480 ECTS einingar,“ segir Hjördís.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka