400 stelpur heimsóttu tæknifyrirtæki

Um 400 stúlkur úr grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi heimsóttu í dag Háskólann í Reykjavík og nærri 20 tæknifyrirtæki. Um var að ræða viðburðinn Stelpur og tækni, sem nú var haldinn í þriðja sinn.

Markmið viðburðarins er að „vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá HR.

Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs HR, sagði í samtali við mbl.is að einkar vel hefði tekist til en fjöldi þátttakenda hefur aukist úr 100 í 400.

„Vinnusmiðjur voru haldnar í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, Skema og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Viðfangsefnin voru af ólíkum toga og í ár var meðal annars boðið upp á vinnusmiðjur um uppbyggingu tölvuleikja, heilarita, félagsgervigreind og brotaþol kjúklingabeina.

Eftir að vinnustofunum lauk fóru stelpurnar í heimsókn í tæknifyrirtæki. Þar miðluðu konur sem starfa hjá fyrirtækjunum reynslu sinni, gefin var innsýn í í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Þau fyrirtæki sem stelpurnar heimsóttu í ár voru: Advania, Alcoa, CCP, GreenQloud, Íslandsbanki, Landsvirkjun, LS Retail, Marel, Mentor, NOVOMATIC Lottery Solutions, Meniga, Microsoft, Opin Kerfi, ORF Líftækni, Plain Vanilla, Qlik, Síminn og Tempo Software,“ segir í tilkynningu HR.

Girls in ICT er haldinn víða í Evrópu á ári hverju og er styrktur af International Telecommunication Union og Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert