Eldingu laust niður í flugvél Icelandair

Hér má sjá eldinguna og hvar flugvélin var er henni …
Hér má sjá eldinguna og hvar flugvélin var er henni laust niður.

Eldingu laust niður í farþegaflugvélar sem voru að koma til lendingar á Heathrow-flugvelli í London í gær. Ein þeirra var frá Icelandair. Atvikið náðist á myndband af jörðu niðri.

Í frétt Sky segir að vélin hafi verið frá Icelandair og verið að koma frá Reykjavík til London í gærkvöldi.

Breskir fjölmiðlar segja að þrjár vélar hafi líklega orðið fyrir eldingum yfir London i gærkvöldi. Icelandair-vélin hafi verið ein af þeim. Í frétt Telegraph segir að eldingin hafi farið í væng vélarinnar.

Á myndbandinu sem íbúi í vesturhluta London náði, sést að vélin flaug fyrir neðan stórt og dökkt ský er elding birtist allt í einu. Miklar þrumur fylgdu i kjölfarið.

Farþegum um borð í Icelandair-vélinni var brugðið er mikill blossi sást og hávær hljóð heyrðust, segir í frétt Sky. Haft er eftir þeim að flugstjórinn hafi komið fram í farþegarýmið og sagt frá atvikinu og þar með róað fólkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert