Skattaskjólamál fyrir þingið á morgun

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis Ómar Óskarsson

Á morgun verða tekin fyrir á Alþingi mál Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um aflandsfélög. Einar Kr. Guðfinnsson, forseti þingsins, sagði á þingfundi í dag að formenn þingflokkanna hefðu rætt saman á fundi í gær þar sem niðurstaðan hafi verið að greiða fyrir að koma þessum málum á dagskrá á morgun.

Mál Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gengur út á að skipuð sé nefnd sérfræðinga sem fari yfir fjölda félaga sem tengist íslenskum aðilum sem eru með fjármuni og eignir í skattaskjólum. Nefndin eigi svo að skila skýrslu til Alþingis um umfang starfseminnar.

Tillaga Samfylkingarinnar er aftur á móti tengd alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattasvæðum. Var tillagan lögð fram í dag og er fyrsti flutningsmaður hennar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert