Tími leyndarinnar liðinn

Akaash Maharaj, framkvæmdastjóri alþjóðlegra samtaka þingmanna gegn spillingu.
Akaash Maharaj, framkvæmdastjóri alþjóðlegra samtaka þingmanna gegn spillingu. mbl.is/Eggert

Panamaskjölin sýna að tími leyndarinnar er liðinn, að mati Akaash Maharaj, framkvæmdastjóra alþjóðlegra samtaka þingmanna gegn spillingu. Hann segir lofsvert að íslenska þjóðin hafi krafist afsagnar forsætisráðherra og að hann hafi orðið við kröfunni. Stjórnvöld þurfi að grípa til aðgerða gegn huldufélögum.

Maharaj ræddi um hvað lýðræðisríki geta gert til þess að koma böndum utan um nafnlaus huldufélög sem eru skráð á aflandssvæðum á ráðstefnu um mannréttindi, lýðræðislega ábyrgð, fullveldi ríkja og alþjóðlega stjórnun í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Hann er framkvæmdastjóri GOPAC, alþjóðlegra samtaka þingmanna gegn spillingu.

Í samtali við mbl.is segir Maharaj að það alvarlegasta sem hafi komið fram í Panamaskjölunum sé ekki bara net aflandsfélaga sem afhjúpað var þar heldur fjöldi huldufélaga þar sem raunverulegu eignarhaldi er leynt. Áætlað sé að ríki heims verði af 3,1 milljón milljóna dollara á hverju ári vegna skipulagðra skattaundanbragða, ekki aðeins vegna aflandsfélaga þó.

Gáleysi af stjórnmálamönnum að eiga í aflandsfélögum

Birting Panamaskjalanna hefur leitt í ljós að heimsþekktir einstaklingar, þjóðarleiðtogar, athafnamenn og fleiri hafi átt félög í skattaskjólum, þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra.

Maharaj telur það gáleysislegt af stjórnmálamönnum að eiga hlut í félögum af þessu tagi, ekki síst á tímum þegar mikið vantraust ríkir gagnvart stjórnmálunum, stjórnmálamönnum og opinberum stofnunum.

„Það er gríðarlega mikilvægt að stjórnmálaleiðtogar fari fram með góðu fordæmi og sýni að þeir hafi ekkert að fela. Á endanum hafa þeir sem gegna háum embættum skyldu til að sýna fram á heiðarleika sinn fyrir almenningi. Það er ekki almennings að gera ráð fyrir heiðarleika þeirra,“ segir hann.

Frá ráðstefnunni sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu í dag þar …
Frá ráðstefnunni sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu í dag þar sem Maharaj var einn frummælenda. mbl.is/Eggert

Gróf undan trausti með að upplýsa ekki um hagsmuni

Spurður um mál Sigmundar Davíðs sem varð uppvís að því að hafa átt hluti í aflandsfélaginu Wintris sem átti kröfur á hendur öllum föllnu bönkunum segist Maharaj telja að fyrrverandi forsætisráðherra hafi gert rétt með því að víkja.

„Það ber íslensku þjóðinni góða sögu að hún hafi krafist þess að hann segði af sér. Það ber honum góða sögu að hann hafi sagt af sér,“ segir Maharaj.

Hann leggur áherslu á að engar vísbendingar hafi komið fram um að Sigmundur Davíð hafi staðið í skattaundanskotum eða ólöglegum fjármálagerningum. Það sé þó í raun aukaatriði því sú staðreynd að ráðherrann fyrrverandi hafi átt í félagi, sem tengdist þar að auki uppgjöri föllnu bankanna, og að hann hafi ekki upplýst um það hafi grafið undan trausti almennings.

„Kjarni lýðræðisins er gegnsæi. Almenningur á rétt á gera ráð fyrir því að fólkið sem þjónar honum komi hreint fram og af gegnsæi um alla hagsmuni sína og hann á rétt á að hafa efasemdir um stjórnmálaleiðtoga sem hefur ekki komið hreint fram um hagsmuni sína. Það eru sannarlega lögmætar ástæður fyrir því að eiga eignir erlendis en ef þú ert ekki opinn með eignarhald þitt á þeim þá hefur fólkið rétt á að gruna að ástæður þínar séu ekki lögmætar,“ segir Maharaj.

Sigmundur Davíð gekk út úr viðtali þar sem hann var …
Sigmundur Davíð gekk út úr viðtali þar sem hann var spurður um aflandsfélagið Wintris. Skjáskot/SVT

Banni huldufélögum að hafa umsvif

Brýnt er fyrir ríki heims að láta til skarar skríða gegn huldufélögum, að mati Maharaj. Samtökin sem hann er í forsvari fyrir hafa lagt fram tillögur í þeim efnum en þar ber helst að lönd taki upp opinbera hagsmunaskráningu þar sem skylt yrði að skrá eigendur og stjórnendur huldufélaga.

Maharaj telur hins vegar óumflýjanlegt að jafnvel við kjöraðstæður yrðu alltaf einhver ríki sem höfnuðu því að taka upp slíka skráningu til þess að geta orðið miðstöð fyrir skráningar á huldufélögum. Því mæla samtökin einnig með því að lönd skyldi borgara sína til að gefa opinberlega upp eignarhald sitt á huldufélögum og banni slíkum félögum að stunda nokkra starfsemi, eiga eignir eða fjárfesta í fasteignum.

„Ef Ísland kæmi á hagsmunaskráningu en Cayman-eyjar ekki þá gæti Ísland ekki gert neitt til þess að neyða Cayman-eyjar til þess. Ísland gæti hins vegar sagt við íslenska borgara að ef þeir eiga hluti í aflandsfélögum á Cayman-eyjum verði þeir að gefa það upp við íslensk yfirvöld. Ríkisstjórn Íslands gæti sagt að öll huldufélög sem eru skráð annars staðar og eigendur og stjórnendur hafa ekki verið skráðir megi ekki stunda viðskipti á Íslandi, eiga eignir á Íslandi eða kaupa fasteignir,“ segir Maharaj.

Alls eru um 11,5 milljón skjöl að finna í pappírunum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama. Maharaj segir að það eigi eftir að taka sinn tíma fyrir blaðamennina sem hafa þau undir höndum að vinna úr þeim. Óumflýjanlegt sé að stjórnvöld, lögregla og skattayfirvöld í ríkjum heims fái gögnin afhent til að þau geti metið hvort að þeir einstaklingar sem nefndir eru í skjölunum hafi átt félögin í lögmætum eða ólögmætum tilgangi.

„Ef það eru ein skilaboð sem Panamaskjölin senda eru það sú að tími leyndarinnar er liðinn og einstaklingar sem hafa reitt sig á leyniskjöl og huldufélög til að stunda viðskipti gera sér grein fyrir því að sá tími er liðinn,“ segir Maharaj.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert