16 ára dómur fyrir manndráp

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt Gunnar Örn Arnarsson í 16 ára fangelsi fyrir að hafa orðið manni að bana á Akranesi í október í fyrra. Í dómi héraðsdóms Vesturlands kemur fram að framburður ákærða í málinu sé ótrúverðugur og að sönnun sem saksóknari hafi sett fram í málinu sé ekki véfengjanleg með skynsamlegum rökum. 

Maðurinn sem lést hét Karl Birgir Þórðarson fæddur árið 1957. 

Árás­in átti sér stað á heim­ili á Akra­nesi 2. októ­ber í fyrra en Karl lést fimm dög­um síðar. Gunnar er dæmdur fyrir að hafa hert að hálsi Karls með höndunum og með því að bregða beltisól og fatareim um hálsinn á honum og herða að. Þar með talið með því að binda hnút á reimina svo hún losnaði ekki frá hálsinum, og stuttu síðar með því að bregða reiminni að nýju um hálsinn á Karli Birgi og herða að, eftir að endurlífgunartilraunir voru hafnar. 

Systkini Karls fóru fram á samanlagt níu milljónir króna í miskabætur. Þá var einnig lögð fram miskabótakrafa af hálfu sambýliskonu hins látna. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Gunnar skildi greiða sambýliskonunni 800 þúsund krónur í bætur en aðrar bætur sneru aðeins að útfararkostnaði.

Geðlæknar mátu sakhæfi Gunnars og var það afdráttarlaust mat yfirmatsgerðar að hann hefði verið sakhæfur á þeim tíma sem hann drýgði brot sitt og ekkert mæli gegn því að refsing beri árangur.

Gunnar neitaði sök í málinu og sagði verknaðarlýsingu sem kæmi fram í ákæru ekki standast. Sagði hann að Karl hefði látist við líknandi lífslokameðferð, en læknir vitnaði til um að þegar sú ákvörðun var tekin hafi ekki verið nein heilastarfsemi hjá Karli og engin ráð um að heilinn gæti tekið að starfa á ný vegna mikilla skemmda. Með hliðsjón af því var það niðurstaða dómsins að bæði hafi Karl verið látinn í skilningi laga eftir að Gunnar hafði kyrt hann og að Gunnari hafi átt að vera ljóst að langlíklegast væri að kyrkingartök hans myndu leiða til dauða. Dómurinn segir því Gunnar hafa gerst sekan um manndráp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert