Bíður eftir svörum frá Bankasýslu

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist eiga von á því að Bankasýsla ríkisins muni upplýsa fljótlega um það sem máli skiptir varðandi söluna á hlut Landsbankans í Borgun, þar á meðal hvort verðmat hafi farið fram og hversu hátt það hafi þá verið.

Hann ætlar í framhaldinu að setja fram skýrslu með svörunum á Alþingi þar sem hún verður rædd.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir svörum frá Bjarna varðandi verðmatið á Alþingi í dag. Bjarni vísaði þar í svar frá Bankasýslunni  frá 14. mars síðastliðnum við skriflegri fyrirspurn hans um málið.

„Niðurstaðan af athugun Bankasýslunnar á málinu var að sölumeðferðin hafi varpað verulegum skugga á ásýnd bankans undanfarin misseri. Þessu er ég sammála, enda er það verulega gagnrýnivert að ekki hafi verið farin leið opins söluferlis á eignum bankans,“ sagði Bjarni, sem bíður enn eftir svörum varðandi verðmatið.

mbl.is/Júlíus

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, steig næst í pontu og sagði það umhugsunarefni að stjórnendur Landsbankans skuli sitja enn.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnaði því að upplýsingarnar frá Bankasýslunni verði ræddar á Alþingi en kvaðst einnig vilja halda þeim möguleika opnum að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis takið málið til sérstakrar rannsóknar.

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði málið mjög alvarlegt, enda liggi fyrir að ríkissjóður hafi í gegnum Landsbankann tapað 4 til 6 milljörðum króna á sölu sinni á hlut í Borgun sem hafi farið fram með óeðlilegum hætti.

„Ég held að það séu 12 vikur síðan þessi fyrirspurn kom fram. Hvað gerir hæstvirtur ráðherra? Enn einu sinni kemur hann og skilar auðu og getur ekki svarað því hvort það var til verðmat,“ sagði Össur. „Hann verður að stappa fæti sínum niður fastar heldur en hefur verið gert hingað til.“

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján L. Möller sagðist engin svör hafa fengið við fyrirspurnum sínum varðandi verðmatið. „Er Borgun að leyna Landsbankanum upplýsingum? Er Landsbankinn að leyna fjármálaráðherra upplýsingum? Það er maðkur í mysunni og mér finnst þetta grafalvarlegt mál,“ sagði hann og bætti við að fjármálaráðherra verði að ganga fram með meiri krafti við sínar undirstofnanir. „Það þarf enginn að segja mér að menn hafi ekki gert sér grein fyrir verðmati fyrirtækisins á þessum tíma.“

Bjarni steig þá í pontu og sagði að menn ættu að fara varlega í að fullyrða um eitthvað tiltekið tap sem Landsbankinn hafi orðið fyrir. „Ég vil ekki að menn geri lítið úr umræðunni um að stjórnendur bankans hafi gengist við mistökum við þessu máli, síðast á aðalfundi Landsbankans,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert