Virða ekki skilti um lokun vega

Dettifoss er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, sem eru ekki alltaf sáttir …
Dettifoss er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, sem eru ekki alltaf sáttir við það þegar vegurinn er lokaður. Rax / Ragnar Axelsson

Töluvert er um að vegurinn sem liggur frá þjóðvegi 1 að Dettifossi sé lokaður vegna slæmrar færðar. Það kemur þó ekki í veg fyrir að ferðamenn reyni að komast leiðar sinnar til að berja þessa náttúruperlu augum með þeim afleiðingum að bílar festist á leiðinni inn að fossi.

„Mesta vandamálið er að það virðist engu skipta hvernig merkingar eru settar upp, menn fara samt framhjá þeim,“ segir Gunnar Bóasson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Húsavík. Þrír bílar voru skildir eftir á veginum í ófærðinni sem myndaðist  á fimmtudag. Slá liggur yfir hálfan vegin þegar hann er lokaður og á henni stendur Ófært/Impassable. „Þannig að það ætti ekki að fara framhjá neinum, en þeir fara bara framhjá svo það breytir litlu.“

Mikil umferð árið um kring

Vegurinn að Dettifossi fellur undir G-reglu um mokstur vega tvisvar í viku, vor og haust á meðan að kostnaður verði ekki óhóflegur. Vegurinn er ekki á fastri mokstursáætlun og því ekki skylda að halda honum opnum, en Vegagerðin reynir að miða mokstur sinn við að útlit sé fyrir að vegurinn muni haldast opinn í nokkra daga.

Mikil umferð er að Dettifossi árið um kring, óháð færð. „Ef ferðamenn sjá slóð þangað niður eftir þá fara þeir, alveg sama þó að þeir séu bara á fólksbíl. Þetta er bölvað vandamál,“ segir Gunnar og viðurkennir að eflaust sé full ástæða til að halda veginum opnum árið um kring þegar hægt sé. „Stundum er hins vegar bara glórulaust að reyna að halda honum opnum vegna veðurs.“ 

Til þess hægt væri að halda veginum opnum árið um kring, þurfi hins vegar að gera sérstaklega ráð fyrir opnun hans á fjárhagsáætlun. „Og það er líklega tómt mál að tala um á meðan það eru ekki meiri peningar til vegagerðar í landinu.“

Dregið úr álagi á björgunarsveitina

Kristján Steingrímsson, formaður Björgunarsveitarinnar Stefáns í Mývatnssveit er ekki þeirrar skoðunar að algengt sé að menn hunsi skilti Vegagerðarinnar. „En það er samt eitthvað um það og við höfum alveg lent í því að menn hafi farið framhjá skiltinu og síðan fest sig,“ segir hann

Verulega hafi hins vegar dregið úr útköllum sem sveitin sinni vegna bíla sem hafi fests eftir að lögregla tók að beina fólki til þjónustuaðila sem sér um að losa bíla gegn greiðslu þegar ekki er mjög vont veður. „Þannig að það hefur snarfækkað útköllum til okkar sl. tvö ár og dregið verulega úr álagi vegna þessa,“ segir Kristján.

Ekki alltaf við ferðamennina að sakast

Karl Viðar Pálsson, sem sér um að losa bíla sem eru fastir, segir töluvert um að hann sé kallaður að Dettifossi til að losa bíla ferðamanna. „Síðan er þetta náttúrulega ekki allt þeim að kenna. Þessi veður sem hafa verið hérna eiga það til að bresta á þannig að það verði alveg blint. Þetta gerðist síðast í fimmtudag og einnig á sunnudaginn fyrir viku. Þá lokuðust bílar þarna og björgunarsveitin sótti fólkið og síðan tókum við bílana eftir að búið var að opna,“ segir Karl Viðar.

Ekki sé í raun við neinn að sakast  þegar slíkar aðstæður komi upp.  „Það er þá helst að það þyrfti að loka vegum fyrr, en það gerist ekki nema með því að ákvörðunarvaldið til að loka vegum sé fært heim í hérað þar sem menn vita hverju má búast við.“

Hann segir alltaf eitthvað um að ferðamenn skilji bílaleigubíla sína eftir. „Stundum á fólk einfaldlega bókað flug og það er ekki alltaf  einhverjum að að kenna ef hann festir sig upp á  öræfum. Þetta eru stundum bara ævintýri sem fólk lendir í.“ Karl Viðar segir ferðamenn sem festa sig almennt hringja í 112 og  þar sé þeim gert grein fyrir því að bíllinn verði losaður gegn greiðslu.  Hann segir fólk líka almennt sátt við að greiða fyrir þjónustuna. „Þetta er þó einstaklingsbundið og það meira um Íslendingar séu ósáttari við að borga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert