Allt á floti í Alþýðuhúsinu

Gríðarlegt vatnstjón varð í Alþýðuhúsinu á Akureyri í nótt þegar allt að 10-12 þúsund lítrar af vatni láku úr stórri uppþvottavél á fjórðu hæð hússins. Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir lekann einn þann mesta sem hann hefur séð. Miklar skemmdir urðu á neðri hæðum hússins sömuleiðis.

Tilkynnt var um lekann þegar klukkan var sautján mínútur gengin í átta í morgun að sögn Jónasar Baldurs Hallssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á Akureyri. Slanga fór af stórri uppþvottavél í veislusal á fjórðu hæð hússins með fyrrnefndum afleiðingum.

„Það sprautaðist úr þessu í einhverja klukkutíma. Gróflega reiknast mér til að þetta hafi verið tíu til tólf þúsund lítrar. Þetta er 300 fermetra svæði, fjórða hæðin. Það var fjögurra sentímetra borð yfir öllu svæðinu. Svo var eitthvað komið inn í veggina og niður á neðri hæðir líka. Það er á öllum hæðum fyrir neðan líka,“ segir Jónas Baldur.

Vatn lak meðal annars niður á tölvukerfi Íslandsbanka sem er á neðstu hæð Alþýðuhússins. Jónas Baldur segir ljóst að mjög mikið tjón hafi orðið í lekanum í byggingunni. Gólf- og loftefni og innanstokksmunir séu skemmdir á öllum hæðum.

„Það er búið að leka ofan á fullt af húsgögnum og vatnsborðið er búið að skemma fætur á öðru,“ segir varðstjórinn sem segist ekki hafa séð annan eins leka á Akureyri.

Slökkviliðsmenn eru enn að störfum við að dæla vatni en Jónas Baldur segir að þeir séu að leggja lokahönd á það verk.

Nokkur stéttarfélög eru til húsa í Alþýðuhúsinu, Sjómannafélag Eyjafjarðar og Vinnueftirlitið auk útibús Íslandsbanka sem er á neðstu hæðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert