Hagstætt tíðarfar í apríl

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 202,2, 62 stundum yfir meðallagi, þær …
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 202,2, 62 stundum yfir meðallagi, þær voru lítillega fleiri í apríl 2008. mbl.is/Styrmir Kári

Tíðarfar í apríl var hagstætt að mestu að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Hiti var vel ofan meðallags 1961 til 1990, en þó var að tiltölu kaldara um landið austanvert heldur en í öðrum landshlutum. Úrkoma var mikil austast á landinu en þurrviðrasamt og sólríkt um landið vestanvert. Snjór var víðast hvar minni en í meðalári nema inn til landsins á Norðausturlandi.

Meðalhiti í Reykjavík var 4,3 stig, +1,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti á Akureyri var 2,8 stig, 1,2 stigum ofan meðaltals 1961 til 1990 og 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.

Fyrstur fjórir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík er +0,9 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,3 undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi er meðalhitinn +1,4 stigum ofan meðallags lengra tímabilsins, en -0,1 stigi undir meðallagi þess styttra. Á Akureyri er meðalhitinn +0,3 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -1,2 undir meðallagi síðustu tíu ára. Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa ekki verið kaldari á Akureyri síðan 2002, en voru þó ámóta kaldir 2008 og nú.

Úrkoma fyrstu fjóra mánuði ársins er 16 prósentum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 í Reykjavík, en 10 prósentum yfir því á Akureyri.

Fjöldi alhvítra daga er í meðallagi þessa fjóra mánuði í Reykjavík, en á Akureyri eru þeir 9 fleiri en í meðalári. Meðalloftþrýstingur tímabilsins er nærri meðallagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert