Sviptur ökuréttindum ævilangt

Hæstiréttur þyngdi dóminn yfir manninum.
Hæstiréttur þyngdi dóminn yfir manninum. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur Íslands hefur dæmt 32 ára karlmann í 30 daga fangelsi og svipt hann ökuréttindum ævilangt.

Hann hafði verið sektaður um 185 þúsund krónur og sviptur ökuréttindum í 18 mánuði í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ríkissaksóknari áfrýjaði þeim dómi til hæstaréttar, sem kvað upp sinn dóm í dag.

Maðurinn var sakfelldur í héraði fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna og á sama tíma haft í vörslum sínum fíkniefni.

Í dómi hæstaréttar kom fram að hann hefði tvisvar áður hlotið refsingu sem skipti máli við ákvörðun refsingar hans. Fyrst var hann sektaður og sviptur ökuréttindum í 12 mánuði fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og síðar var hann dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökuréttindum í þrjú ár fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk fleiri brota.

Talið var að þótt hann hefði staðist skilorð þess dóms breytti það engu um ákvörðun refsingar hans nú, þar sem umferðalagabrotin hefðu ekki ítrekunaráhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert