Hvað hefur Dorrit sagt?

Dorrit Moussaieff forsetafrú.
Dorrit Moussaieff forsetafrú. Kristinn Ingvarsson

Síðustu daga hafa margar spurningar vaknað um eignir Dorritar Moussaieff, eiginkonu forseta Íslands, tengsl hennar við aflandsfélög, skattagreiðslur hennar og lögheimili. Fjölmiðlar hafa ítrekað óskað eftir viðtölum og sent fyrirspurnir en ekki alltaf haft erindi sem erfiði. 

„No, no, no, no, no, that is not going to be the case,“ svaraði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þegar fréttakonan Christiane Amanpour á CNN spurði hann hvort eitthvað ætti eftir að koma í ljós um hann eða fjölskyldu hans í umræðunni um skattaskjól. Þetta var föstudaginn 22. apríl.

Mánudaginn 25. apríl greindu Kjarninn og Reykjavík Grapevine aftur á móti  frá því að fjölskylda Dorritar Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, hefði átt aflandsfélag sem skráð var á Bresku Jómfrúareyjunum frá 1999 – 2005. Félagið, Lasca Finance Limited, kemur fyrir í Panama-skjölunum.

Kjarninn sendi embætti forseta Íslands fyrirspurn vegna félagsins. Í svarinu sem barst sagði: „Hvorki forseti né Dorrit vita neitt um þetta félag né hafa heyrt af því áður. Faðir Dorritar er látinn og móðir hennar, sem er 86 ára, man ekki eftir neinu slíku félagi.“

Hvorki Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son né Dor­rit Moussai­eff hafa átt kröf­ur í slita­bú föllnu bank­anna. Eign­ir Dor­rit­ar eru í Bretlandi og eign­ir Ólafs eru á Íslandi. Þetta kom fram í svari Árna Sigurjónssonar, skrifstofustjóra á skrifstofu forseta forseta Íslands, við fyrirspurn mbl.is þennan dag.

mbl.is
 sendi fyr­irsp­urn til for­seta með nokkr­um spurn­ing­um sem Kári Stef­áns­son bar upp í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu. Þar spurði hann hverj­ar eign­ir for­seta­hjón­anna væru og hvar þær væru geymd­ar. Þá spurði hann hvort þau ættu kröf­ur á föllnu bank­anna og hvers vegna op­in­ber gjöld af er­lend­um eign­um hjón­anna væru ekki greidd á Íslandi. Í stuttu svari seg­ir að Dor­rit sé bresk­ur rík­is­borg­ari með lög­heim­ili í Bretlandi. Þar hafi hún og fjöl­skylda henn­ar búið og stundað at­vinnu í ára­tugi. Hún greiði því skatta í Bretlandi.

Í þjóðskrá eru Ólaf­ur og Dor­rit skráð sem „hjón ekki í sam­vist­um“. Dor­rit flutti lög­heim­ilið til Bret­lands árið 2012. „Þegar horf­ur voru á að eig­inmaður minn yrði ekki leng­ur for­seti gerði ég ráðstaf­an­ir til að geta sinnt meira fyrri störf­um mín­um í London, einkum í ljósi þess að for­eldr­ar mín­ir, sem stjórnað hafa fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­inu, eru nú háaldraðir,“ sagði í yf­ir­lýs­ingu frá Dor­rit árið 2013 þegar fjöl­miðlar spurðust fyr­ir um flutn­ing­ana.

Þriðjudaginn 26. apríl sendi blaðamaður mbl.is eftirfarandi fyrirspurn til Ólafs Ragnars:

Í fréttum Kjarnans og Grapevine í gær kom fram að félag í eigu fjölskyldu Dorritar Moussaieff hafi verið skráð á Bresku Jómfrúareyjunum frá árinu 1999 til ársins 2005. Félagið, sem heitir Lasca Finance Limited, er að finna í gögnum frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Árið 2005 seld­i ­fjöl­skyldu­fyr­ir­tækið Moussai­eff Jewell­ers Ltd. tíu pró­senta hlut sinn í Lasca F­in­ance til hinna tveggja eig­enda þess. Þeir voru S. Moussai­eff og „Mr­s.“  Moussai­eff. 

Hafa þessar upplýsingar einhver áhrif á framboð þitt til forseta Íslands? Ef svo er, hvaða áhrif hafa þær?

Ætlið þið hjónin að gera upplýsingar úr skattaskýrslum ykkar opinberar líkt og nokkrir stjórnmálamenn hafa gert að undanförnu?

Sama dag barst svar þess efnis að forsetinn hefði ekki mótað afstöðu til spurninganna. Blaðamaður ítrekaði fyrirspurn sína með tölvupósti daginn eftir og einnig mánudaginn 2. maí. Einnig hefur verið haft samband við Örn­ólf­ Thors­son forsetaritara vegna málsins en enn sem komið er hefur Ólafur Ragnar ekki svarað fyrirspurn mbl.is.

Mánudaginn 2. maí greindi Reykjavík Media frá því að Dorrit hafi tengst minnst fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum. Greindi fjölmiðillinn einnig frá því að Dorrit hefði ekki viljað svara spurningum um hvort hún tengdist félögunum þegar eftir því var leitað. Sagði hún að viðskipti sína hefðu alltaf verið í samræmi við lög og að þau væru einkamál.

Í yf­ir­lýs­ingu sem send var Reykja­vik Media sagði Dor­rit að fjár­hag­ur sinn og Ólafs Ragn­ars væri og hefði alltaf verið aðskil­inn og þá sagði for­seta­rit­ari í skrif­legu svari að for­set­inn hefði enga vitn­eskju um fé­lög­in og að hann hefði aldrei heyrt um þau. Þá sagði í svari Örn­ólfs að for­set­inn hefði aldrei haft upp­lýs­ing­ar um aðra meðlimi Moussai­eff fjöl­skyld­unn­ar.

mbl.is sendi forseta fyrirspurn vegna málsins eftir að upplýsingar Reykjavík Media lágu fyrir. Í svari forsetaritara sagði að forseti þekki ekki til fjárhagstengsla eiginkonu sinnar við foreldra sína eða aðra í fjölskyldu hennar.

„Í svari [Ólafs Ragn­ars] til blaðamanns Guar­di­an fyrr í dag kom fram að hann hefði aldrei heyrt um þau atriði sem nefnd voru í frétt­inni né hefði hann nú eða nokkru sinni haft vitn­eskju um fjár­hag­stengsl konu sinn­ar við for­eldra sína eða aðra í fjöl­skyld­unni; né um áform for­eldra henn­ar að þeim látn­um. Hann vissi því ekk­ert um málið. Jafn­framt áréttaði for­seti að hann hefði ávallt verið mjög gagn­rýn­inn á af­l­ands­fé­lög og skatta­skjól, og í ára­tugi talað fyr­ir rétt­látu og sann­gjörnu skatt­kerfi,“ sagði í svari Örn­ólfs

Fimmtudaginn 5. maí sendi Dorrit síðan frá sér yfirlýsingu og sagði hún að í henni fælist viðbrögð við vangaveltum og ónákvæmum yfirlýsingum og fullyrðingum í fjölmiðlum.

Laus­leg þýðing mbl.is á yfirlýsingu Dorritar:

Yf­ir­lýs­ing Dor­rit­ar Moussai­eff

Vanga­velt­ur og óná­kvæm­ar yf­ir­lýs­ing­ar og full­yrðing­ar hafa verið sett­ar fram í ýms­um blaðagrein­um. Til leiðrétt­ing­ar vil ég koma eft­ir­far­andi á fram­færi:

1. Ég hef aldrei átt banka­reikn­ing hjá HSBC né hef ég átt í viðskipt­um við bank­ann.

2. Skír­skotað hef­ur verið til tengsla minna við fyr­ir­tæki að nafni Jaywick Properties Inc. Jaywick var fyr­ir­tæki sem teng­ist for­eldr­um mín­um og var af­skráð 2001. Ég hagnaðist ekki á Jaywick áður eða eft­ir að það var af­skráð.

3. Þegar ég var skráð til heim­il­is á Íslandi upp­ýsti ég ís­lensk skatta­yf­ir­völd um viðkom­andi hags­muni mína. Ég sá ís­lensk­um skatta­yf­ir­völd­um einnig fyr­ir ein­taki af skatt­skýrslu minni til breskra skatta­yf­ir­valda.

4. Ég hef aldrei rætt fjár­mál fjöl­skyld­um minn­ar eða fjár­hags­lega til­hög­un við eig­in­mann minn þar sem um er að ræða einka­mál for­eldra minna.

5. Ég er nú bú­sett í Bretlandi þar sem ég hef veitt bresk­um skatta­yf­ir­völd­um viðhlít­andi upp­lýs­ing­ar

Kjarninn og Reykjavík Grapevine greindu frá því að fjölskylda Dorritar …
Kjarninn og Reykjavík Grapevine greindu frá því að fjölskylda Dorritar Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, hefðu átt aflandsfélag sem skráð var á Bresku Jómfrúareyjunum frá 1999 – 2005. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert