Listin áfram í Ásmundarsal

Listasafn ASÍ verður með starfsemi í húsinu fram á haust …
Listasafn ASÍ verður með starfsemi í húsinu fram á haust þegar nýju eigendurnir taka við starfseminni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er vilji nýrra eigenda Ásmundarsalar við Freyjugötu að myndlistin blómstri þar áfram. Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson hafa keypt Ásmundarsal við Freyjugötu sem um árabil hefur verið í eigu Listasafns ASÍ.

Ásmundarsalur hefur spilað stórt hlutverk í lista- og menningarsögu Íslands allt frá því Ásmundur Sveinsson myndhöggvari lét reisa þetta fallega og merkilega hús á fjórða áratug síðustu aldar. Það var ósk Ásmundar að húsið yrði nýtt í þágu myndlistarinnar eftir hans dag og það er vilji nýrra eigenda.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu nýrra eigenda Ásmundarsalar og ASÍ.

Frétt mbl.is: Endurskoði sölu á Ásmundarsal

Listasafn ASÍ verður með starfsemi í húsinu fram á haust þegar nýju eigendurnir taka við starfseminni. Stefnt er að reglulegu sýningahaldi í húsinu og glæða það lífi meðal annars með því að setja þar á stofn hönnunar- og listamiðstöð þar sem listamenn með ólíkan bakgrunn geta unnið að listsköpun sinni.

„Við munum jöfnum höndum styðja við unga hönnuði og listamenn auk þess að vera í nánu samstarfi við virta og þekkta listamenn bæði innlenda og erlenda og skapa þannig fjölbreytta og nútímalega listamiðstöð,“ er haft eftir Aðalheiði Magnúsdóttur í fréttatilkynningu.

„Alþýðusambandið fagnar mjög áformum Aðalheiðar og Sigurbjörns að reka áfram listastarfsemi í Ásmundarsal við Freyjugötu,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir formaður rekstrarstjórnar Listasafns ASÍ. „Þessi niðurstaða er fullkomlega í takt við þær væntingar sem ASÍ hafði þegar húsið var sett í söluferli. Ásmundarsalur verður áfram í góðum höndum, listin verður þar allsráðandi sem fyrr og málið því fengið farsælan endi. Við ítrekum hins vegar að Listasafn ASÍ mun starfa áfram af krafti þó á nýjum forsendum sé.“

Húsið er listaverk út af fyrir sig, teiknað af Sigurði Guðmundssyni árið 1933. Nýju eigendur þess munu leggja áherslu á að vernda þetta merkilega hús og viðhalda og efla lista- og menningarhlutverk þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert