Michelin-kokkar elda hjá Einsa Kalda

Einar Björn Árnason, Peeter Pihel og Michael Jiro.
Einar Björn Árnason, Peeter Pihel og Michael Jiro.

Tveir meistarakokkar frá veitingastaðnum Fäviken í Jämtland í Svíþjóð munu leika listir sínar á veitingastaðnum Einsa Kalda í Vestmannaeyjum næstkomandi laugardagskvöld, 7. maí. Þeir munu bjóða upp á átta rétta Pop Up-kvöldverð, sem ekki verður endurtekin.

Matreiðslumeistararnir eru Peeter Pihel og Michael Jiro Holman. Þeir elda eftir svonefndri „Rektun Mat“-stefnu en „Rektun Mat“ þýðir raunverulegur matur og er höfuðáherslan m.a. lögð á að hráefnin séu sem ferskust.

Peeter Pihel er 36 ára Eisti. Hann var valinn matreiðslumaður ársins þar í landi árið 2008 og starfaði á veitingastaðnum Pädaste Manor sem var valinn besti veitingastaðurinn í Eistlandi í fjögur ár í röð áður en Pihel hóf störf á Fäviken. Michael Jiro Holman er þrítugur Kanadamaður og japanskur í aðra ættina. Áður en hann hóf störf á Fäviken starfaði hann m.a. í Japan, Kanada, Bandaríkjunum, S-Kóreu og Danmörku. Þess má geta að Fäviken-veitingahúsið státar af tveimur Michelin-stjörnum og er í 2. sæti yfir bestu veitingahús á Norðurlöndunum og í 25. sæti yfir bestu veitingastaði heimsins.

Heimsókn þeirra Pihel og Holman má rekja til þess að Atli Snær Keransson, matreiðslunemi hjá Einsa Kalda og Lava í Bláa lóninu, vann á Fäviken síðasta vetur. Þá kom upp hugmyndin um að bjóða matreiðslumeisturunum tveimur til Vestmannaeyja.

Kvöldverðurinn kostar 9.500 kr. án víns og 17.500 kr. með víni sem kokkarnir velja. Nánari upplýsingar og borðapantanir fást hjá Einsa Kalda (s. 481 1415 og 698 2572). Hótel Vestmannaeyjar (s. 481 2900) verður með tilboð á gistingu í tengslum við Pop Up-kvöldverðinn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert