„Það er náttúrulega sjúkt að gera svona“

Halldór tekur fram að Slóðavinir séu á móti utanvegaaxtri. Gildrurnar …
Halldór tekur fram að Slóðavinir séu á móti utanvegaaxtri. Gildrurnar eru enda lagðar í gönguslóða þar sem aðrir vegfarendur geta slasað sig illa. Ljósmynd/Sigurður Jökull

Karlmaður slasaðist á fæti við Sveifluháls þegar hann steig á naglaspýtu sem virðist hafa verið komið fyrir til að klekkja á vélhjólamönnum. Spýtunni, sem búið var að negla í gegn með löngum nöglum hafði verið komið fyrir í fjölförnum slóða og hafði hún verið hulin mosa. Svipaðar gildrur hafa fundist við Vigdísarvelli og Bláfjallaafleggjara.

Halldóri Sveinssyni formaður Slóðavina, ferða- og útivistarfélags mótorhjólamanna, segir svipuð tilfelli hafa komið nokkrum sinnum upp á síðustu árum. Hann hafi þó ekki séð þessa útgáfu áður.

„Ég hef grun um að þessu sé beint að okkur hjólamönnum. Við í Slóðavinum erum mikið að hjóla á slóðum en erum algjörlega á móti utanvegaakstri. Ég hef persónulega aldrei lent í veseni gagnvart gangandi fólki en það eru náttúrulega svartir sauðir alls staðar.“

Maðurinn sem slasaðist á fyrrnefndri gildru var þó ekki vélhjólamaður heldur vegfarandi á göngu með fjölskyldu sinni. Vegfarandi sem mætti manninum sagði Halldóri að naglinn hefði farið í gegnum skóinn og inn í ilina.

„Það er náttúrulega sjúkt að gera svona, þetta er bara stórhættulegt,“ segir Halldór. „Þetta eru alltaf einhverjir sjálfsskipaðir lögreglumenn, við höfum ekki séð þessa útgáfu áður en í gegnum tíðina höfum við séð þar sem fólk hefur strengt víra yfir slóðina og svoleiðis.“

Hann segir fullljóst að þó svo að gildrurnar eigi að beinast að hjólamönnum geti þær skaðað mun stærri hóp enda séu þau svæði sem um ræðir mikið notuð af öðrum útivistarhópum, gangandi fólki, hesta- og hundaeigendum.

„Það er búið að dreifa [gildrunum] alveg gríðarlega mikið en það er alveg klárt mál að við komum til með að líta eftir þessu. Við höfum farið á hverju vori að laga stíga og reynt að beina umferð frá viðkvæmari svæðum og svo þegar við heyrum af einhverju svona þá förum við og skoðum slóðana, athugum hvort við finnum þetta einhvers staðar og fjarlægjum.“

Hér má sjá spýtuna sem maðurinn steig á.
Hér má sjá spýtuna sem maðurinn steig á. Skjáskot af Facebook
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert