Kastaði grjóti í barnið

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir karlmanni sem fundinn var sekur um að hafa brotið gegn þremur börnum sínum og eiginkonu um átta ára skeið. Þarf hann að sitja fimmtán mánuði í fangelsi og greiða þeim skaðabætur.

Maðurinn var sakfelldur fyrir mörg brot gegn almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum gagnvart börnunum og tvær líkamsrárásir gegn  eiginkonu sinni. Brotin áttu sér öll stað á heimili fjölskyldunnar.

Maðurinn neitaði sök í öllum ákæruliðum og neitaði alfarið að hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína og börn ofbeldi. Sagði hann heimilið hafa verið reglusamt, áfengi hefði ekki verið haft um hönd, heimilishald hefði verið árekstralaust en honum og eiginkonunni hefði ekki samið vel í seinni tíð.

Í dómnum segir meðal annars að eitt barnanna, stúlka, hafi eitt sinn komið til móður sinnar þar sem hún var við störf á garðyrkjustöð. Stúlkan var í rifnum sokkum og sagði að faðir sinn væri brjálaður, hefði hent henni út úr húsinu, kastað í hana grjóti og ekki viljað hleypa henni aftur inn í húsið. Ók konan dóttur sinni heim en þegar þangað var komið kastaði maðurinn grjóti í barnið og vildi ekki hleypa því inn í húsið.

Sagðist eiginkonan þá hafa sagt að þetta gengi ekki en þá hefði eiginmaður hennar „orðið vitlaus og skutlað“ henni á eldhúsborð, staðið yfir henni og ætlað að lemja hana í höfuðið. Þá kom barnið með stóran hníf og hótaði að beita honum ef faðir þess færi ekki burt. Eiginkonan kvaðst ekki hafa þorað að fara til læknis þó að hún hefði fundið fyrir eymslum eftir þetta.

Fram kom hjá konunni að andrúmsloft á heimilinu hefði verið mjög þvingað og ekkert hefði mátt út af bera, þá hefði maðurinn tekið eitthvert barnanna og lamið, t.d. ef djús helltist niður. Versti tíminn hefði verið í skólafríum og þegar ákærði var atvinnulaus, en það hefði hann verið í langan tíma. Þá hefði ofbeldið gagnvart börnunum yfirleitt byrjað við skólaaldur. Brotaþoli kvaðst hafa verið á móti þessum aðförum en ákærði hefði sagt að hún væri aumingi og ræfill. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög hrædd við ákærða, segir í dómnum.

Þá nefndi konan einnig að maðurinn hefði tekið ryksugurör úr járni og slegið eitt barnanna tvisvar í höfuðið. Sagðist hún hafa heyrt mikinn grát og læti og þegar hún hefði komið inn í herbergi barnsins hefði maðurinn verið að lemja það með ryksugurörinu en barnið reynt að verja sig.

Hér má lesa dóminn í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert