Spyr um lögmæti framfærsluskerðingar

Deilt hefur verið um úthlutunarreglur LÍN.
Deilt hefur verið um úthlutunarreglur LÍN. mbl.is/Hjörtur

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, krefur menntamálaráðherra svara um boðaðar breytingar á framfærslu fyrir námsmenn erlendis í skriflegri fyrirspurn sem hún lagði fram á Alþingi í dag. Vill hún meðal annars vita um lögmæti ákvörðunarinnar og svigrúm námsmanna til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Lán til framfærslu íslenskra námsmanna erlendis munu lækka um allt að 20% á næsta skólaári samkvæmt nýjum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, sem tóku gildi 1. apríl. Sú ákvörðun hefur sætt gagnrýni, meðal annars frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) og Bandalagi háskólamanna (BHM).

Í fyrirspurn sinni til Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um breytingarnar spyr Svandís meðal annars hvort lögfræðilegt mat á lögmæti þess að breyta framfærslu námsmanna erlendis liggi fyrir og hvar lagalegur rökstuðningur breytingarinnar hafi verið.

Þá vísar Svandís til álits umboðsmanns Alþingis sem hún segir gefa skýr fyrirmæli til menntamálaráðherra og LÍN um að tryggja námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til að bregðast við breytingum á úthlutunarreglum. Vill hún vita hvaða áhrif það álit og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli námsmannahreyfinganna gegn LÍN og ráðherra sumarið 2013 hafi haft á ákvörðunina.

Í því máli kvað héraðsdómur upp úr um að stjórn LÍN hafi verið óheimilt að breyta úthlutunarreglum sínum fyrir skólaárið 2013-14. Ráðherra ákvað að áfrýja dómnum ekki til Hæstaréttar.

Skrifleg fyrirspurn Svandísar til menntamálaráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert