Aðilar málsins fyrst og fremst börn

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Rannsókn lögreglu á líkamsárás sem átti sér stað við Langholtsskóla í síðustu viku er lokið. Aðeins einn gerandanna er sakhæfur og að sögn Benedikt Lund er málið í eðlilegum farvegi og komið á ákærusvið. Mál hinna gerendanna er á borði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Málið hef­ur vakið mikla at­hygli en mynd­band af árás­inni var sýnt í kvöld­frétt­um Rík­is­út­varps­ins í síðustu viku. Þar mátti sjá þrjár stúlk­ur ráðast á hina fjórðu með of­beldi en um var að ræða gróft einelt­is­mál sem hef­ur staðið yfir í nokkra mánuði.

Í samtali við mbl.is segir Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að skýrslutökum þeirra í málinu sé lokið. „Hér hafa skóli, þjónustumiðstöð og Barnaverndarnefnd ásamt foreldrum lagst á eitt í við að reyna að koma málum barnanna í þann farveg að við sé unað í bili,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Hún segir að nú sé verið að tryggja aðstæður barnanna í skólanum og veita þannig þann stuðning sem hægt er. „Mér sýnist allir sem tengist málinu hafi lagt sig verulega fram við að vinna úr þessu.“

Halldóra segir aðila málsins fyrst og fremst börn sem ber að aðstoða með hverjum þeim hætti sem hægt er. „Það er ekki okkar hlutverk að taka afstöðu til refsinga heldur að styðja við þessa krakka og það sama á við skólann og þjónustumiðstöðina.“

Hún segir mikilvægt að tryggja aðstæður barnanna með áframhaldandi skólagöngu. Hún segir jafnframt að verði barnið ákært verði það sérstaklega skoðað gagnvart þeim aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert